Spurt og svarað

30. ágúst 2005

Sárar geirvörtur og örar gjafir

Góðan dag!

Mig langar að leita ráða varðandi tvö vandamál sem ég á við að stríða í brjóstagjöfinni. Ég er með einn 2 vikna gutta sem er vær og góður og virðist dafna vel.

Í fyrsta lagi eru það sárar geirvörtur. Í upphafi brjóstagjafarinnar tók strákurinn brjóstin vitlaust og fljótlega urðu geirvörturnar sárar og þá sérstaklega önnur vartan umfram hina. Sárið varð blæðandi og fylgdi mikill sársauki hverri gjöf. Núna hinsvegar hefur okkur tekist að laga það hvernig hann tekur brjóstið en einhvern veginn gróa sárin mjög hægt. Ég sá í annarri fyrirspurn að 3 vikur væru alltof langur tími fyrir sár að gróa og mér sýnist allt stefna í að það verði svipað hjá mér. Er eitthvað sem ég get gert til að flýta fyrir batanum? Ég hef notað olnbogaskeljar, bleyta vörturnar með brjóstamjólk og verið dugleg að láta lofta sem hefur hjálpað mikið.

Í öðru lagi eru það örar gjafir og ég er farin að hræðast það að ég hafi sofið í síðasta sinn. Undanfarna 4 daga er orðið svo stutt á milli gjafa á næturnar að ég næ varla að sofna nokkuð á milli. Við erum þá að tala um frá 30 mínútur - 2 tímar og þá er ég að tala um frá upphafi einnar gjafar til næstu. Á daginn er það að jafnaði um 2 - 2,5 tímar. Hann drekkur að jafnaði frá 10 - 12 mínútur og mest upp í u.þ.b. 25 mínútur, en mér finnst málið ekki vera að ég mjólki ekki nóg því hann drekkur kröftuglega á meðan hann er á brjóstinu þar til að hægist á rétt áður en hann sofnar eða slítur sig frá brjóstinu sjálfur. Ég hef prófað að bjóða honum hitt brjóstið þegar hann klárar en hann sýnir því engan áhuga. Er þetta eitthvað tímabil sem hann er að ganga í gegnum eða getur einhver önnur skýring verið á þessu? Get ég einhvern veginn reynt að lengja þessa lúra hjá honum með einhverjum „brjóstagjafatrixum“?

...........................................................................

Sæl og blessuð.

Vandamálin þín tvö eru væntanlega samtengd. Þannig að ef annað er lagað þá lagast hitt að einhverju leyti af sjálfu sér á eftir. Það er rétt hjá þér að sár eiga ekki að vera svo lengi að gróa. Ef sár eru mjög lengi að gróa getur það bent til að sýking sé komin í sárið eða því sé alltaf viðhaldið með skökku gripi barnsins. Því ættirðu að reyna að fá skoðun á sárinu og í leiðinni láta skoða hvort barnið er örugglega að grípa rétt og sjúga rétt. Þá er strax búið að tryggja að sárin geti gróið á eðlilegan hátt. Þegar sár eru á vörtum er mikilvægt að muna að bleyta þær vel með vatni áður en barnið grípur og svo aftur að þvo þær og þurrka vandlega eftir gjafir. Það er trúlegt að þegar sárin fari að lagast og gjafirnar að ganga betur þá fari barnið að sofa lengur milli gjafa. Ég get aðeins ráðlagt þér að reyna að lengja gjafirnar sjálfar með því að dekstra barnið til að sjúga lengur. Það ætti ekki að vera sárt ef hann sýgur rétt. Með lengri gjöfum fær hann meiri uppfyllingu á þörfum sínum bæði næringarlegum og tilfinningalegum og er líklegri til að sofa lengur. Og mundu að sofa með hann hjá þér.

Með bestu ósk um að vel gangi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. ágúst 2005.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.