Spurt og svarað

07. apríl 2006

Sársauki í byrjun gjafar, kolsýrðir drykkir o.fl.

Halló!

Ég er með tveggja vikna dreng og langaði að forvitnast um brjóstagjöf. Málið er þannig að ég finn alltaf sársauka í hægra brjósti fyrst þegar hann drekkur en þetta lagast og minnkar mjög fljótlega. Ég veit að hann er alveg að taka brjóstið rétt og allt gengur mjög vel annars.

Svo önnur spurning, ég er alveg sjúk í að drekka Kristal+ og drekk töluvert af honum, veit að það eru B vítamín í honum en þau eru að vísu vatnsleysanleg (drekk samt líka slatta af vatni) - er það óhollt fyrir brjóstagjöfina að drekka svona drykki þ.e.a.s. létt kolsýrða drykki?

Og eitt í viðbót. Ég finn fyrir nokkurs konar pirring í húðinni, andliti, háls og brjóstum eins og kláða en samt ekki alveg - þarf meira að nudda húðina - er þetta eitthvað sem tengist brjóstagjöfinni?


Sæl og blessuð.

Það eru nokkur fyrirbæri sem geta valdið sársauka í byrjun gjafar en þó er langalgengast að það sé rangt grip. Þú virðist fullviss um að gripið sé rétt þannig að þá gæti hugsanlega verið um að ræða sýkingu, samdráttar eða losunarverki. Það er svolítið erfitt um að segja með svo takmörkuðum upplýsingum. Ef þetta er að trufla þig er best að leita aðstoðar og fá góða skoðun.

Varðandi Kristalinn þá er þér óhætt að drekka hann og létt kolsýrðir drykkir eru í fínu lagi.

Og varðandi það síðasta sem þú talar um þá er nokkuð algengt að brjóstagjöf fylgi saklaus kláði sem oftast er á brjóstunum. Það er hins vegar þekkt byrjunareinkenni sveppasýkingar á geirvörtum að finna fyrir kláða og pirringi í húð á vörtum, brjóstum og hálsi. Þetta er kannski bara frekari ástæða fyrir þig að fá góða skoðun.

Með bestu ósk um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. apríl 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.