Sársauki við brjóstagjöf

24.10.2006

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Er með einn 2 og ½ vikna gaur. Brjóstagjöfin gengur ágætlega en hann er voða duglegur að sjúga og hefur verið frá því að hann fæddist. Hins vegar finnst mér alveg agalega vont þegar hann drekkur og hefur verið frá því að ég setti hann fyrst á brjóst. Ég finn fyrir miklum sársauka í brjóstunum þegar hann sýgur og varir hann allan tíman meðan hann sýgur. Ég er ekki með sár á geirvörtunum en á annarri þeirra er nokkurs konar sprunga en það virðist ekki hafa áhrif á sársaukann. Ég bý erlendis og var 2 daga á sjúkrahúsi eftir fæðinguna og þá fékk ég aðstoð við að setja hann á brjóst og sögðu hjúkrunarfræðingarnir þar að hann sygi rétt og lægi rétt við brjóstið. Gæti það hafa breyst síðan ég kom heim? Er þetta eitthvað sem er eðlilegt? Ef svo er má ég þá ekki búast til þess að þetta lagist, því mér er farið að kvíða fyrir hverri gjöf því þetta er svo vont!

Með kveðju, nýbökuð móðir.


Sæl og blessuð nýbakaða móðir!

Í stuttu máli þá er það ekki eðlilegt að sársauki sé alla gjöfina, það er alveg örugglega eitthvað í gangi sem ekki á að vera. Hvað það er get ég ekki ráðið í af þessu bréfi en það er ýmislegt sem kemur til greina. Efst á listann myndi ég setja sveppasýkingu, næst rangt grip, svo sýkingar í sprungum, svo æðasamdrátt o.s.frv. Þetta er ekkert voðalega langur listi en ég nefni þetta til að sýna þér að það er mikilvægt að greina þetta rétt til að fá rétta meðferð. Finndu einhvern sem hefur gott vit á brjóstagjöf og fáðu skoðun.  Með réttri meðferð ættirðu að lagast á 1-4 sólarhringum. Þú átt alls ekki að bíta á jaxlinn og bíða eftir að þetta lagist af sjálfu sér því það gerir það ekki. Það eina sem gerist ef þú bíður er að þetta versnar.

Með von um að þú fáir skjóta og góða hjálp.                   

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
24. október 2006.