Spurt og svarað

08. október 2005

Sé eftir að hafa ekki reynt meira við brjóstagjöfina

Sælar og takk fyrir afskaplega upplýsandi vef.

Ég er með þriggja og hálfs mánaða gamlan dreng og hann fær aðallega þurrmjólk. Það er skemmst frá því að segja að ég sé alveg ofboðslega mikið eftir því að hafa ekki reynt meira við brjóstagjöfina en lítið við því að gera núna, eða hvað? Hann fékk fyrst ábót þegar hann var 2 vikna því hann grét svo sárt og hafði þyngst svo lítið vikuna áður, (þyngdist samt alveg um 400 gr. fyrstu vikuna en bara 50 gr. aðra vikuna). Hjúkrunarfræðingurinn sem kom heim til mín sagði það í góðu lagi að gefa þurrmjólk. Mestar áhyggjur hef ég í sambandi við veikindi, að barnið mitt sé ekki jafn vel varið gegn sýkingum og brjóstabörn. Ég hef nú alltaf verið að reyna að halda brjóstagjöfinni alltaf eitthvað við með því að leggja hann á hjá mér þó það væri þá ekki  nema bara til þess að barnið fái þessi mótefni. Ef barnið fær u.þ.b.  40-50 ml. af brjóstamjólk á dag fær það þá með því þessi mótefni gegn sýkingum eða get ég alveg eins sleppt þessu. Þetta getur nefnilega stundum verið hálfgerð barátta hjá okkur. Hann verður oftast ekki mjög kátur við það að mamma hans sé að leggja hann á brjóst fyrir þá dropa sem þar eru í staðinn fyrir að fá bara pelann. Svo sofnar hann líka yfirleitt fljótlega eftir að ég hef lagt hann á brjóst, hvað sem það þýðir? Hef mjólkað mig að kvöldi þegar hann hefur ekki verið búinn að drekka mikið hjá mér og hef ég þá fengið 40 ml. Spurningin mín er þess vegna hvort þetta sé þess virði, fær hann mótefnin með þessu litla magni?  Er einhver leið fyrir mig að ná mjólkinni upp?

Með fyrirfram þökk.

........................................................................

Sæl og blessuð!

Það er alltaf hægt að ná mjólk upp sem farið hefur af stað í upphafi. En það getur kostað talsverða vinnu í einhverja daga eða vikur.  Frumurnar í brjóstunum sem geta framleitt mjólk eru óvirkar en þær eru ekki alveg dottnar út. Það er hægt að fá þær til að hefja framleiðslu aftur ef þær eru örvaðar nógu mikið. Það er gert með því að mjólka nógu oft og nógu mikið. Í þínu tifelli væri kjörið að leggja barnið alltaf fyrst á brjóst áður en það fær pela. Ef barnið vill helst ekki reyna geturðu mjólkað smástund með puttunum þannig að mjólk sé komin fram áður en þú leggur á. Síðan reynirðu að fá barnið til að sjúga eins lengi og þú getur áður en þú tekur það af brjósti og gefur þurrmjólk. Ef það er alveg ómögulegt að fá barnið til að sjúga kemur önnur aðferð til greina. Þá leigirðu þér mjaltavél eða notar pumpu eða hendurnar og mjólkar þig 5-7 sinnum á sólarhring. Þá mjólkarðu a.m.k.í 10 mínútur, tekur kannski smá hlé og mjólkar aftur í 3-5 mín. Það gefur meiri örvun að gera þannig. Þú sérð væntanlega lítinn árangur fyrstu 1-2 dagana hvora aðferðina sem þú notar en síðan gætirðu farið að sjá eitthvað gerast.   Ef að staðreyndin er sú að barnið steinsofnar fljótlega eftir að það er lagt á brjóst þá nær það ekki réttu gripi og það þarftu að byrja á því að laga. Það hefur mikil áhrif á örvunina ef hann nær góðu gripi á vörtunni.   Mér finnst þú mjög dugleg að vera að leggja alltaf á brjóst eitthvað á hverjum degi og mjólka. Brjóstamjólkin skiptir alltaf miklu máli þótt hún sé í litlu magni og gefur talsvert af mótefnum og öðrum mikilvægum efnum. Í rauninni skiptir hver dropi máli. Þannig að ef þér líst ekki á aðferðirnar sem ég bendi þér á þá skaltu halda því áfram.        

Með baráttukveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. október 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.