Spurt og svarað

16. október 2011

Sefur of lengi

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef!

Ég á tæplega þriggja mánaða dreng sem hefur alltaf sofið mjög vel á nóttunni og næturlúrinn hjá honum virðist bara lengjast og lengjast Hann sefur nú um 8-10 í einum dúr. Brjóstagjöfin hefur gengið ótrúlega vel en þegar drengurinn sefur svona lengi á ég það til að verða mjög þrútin í brjóstunum Það geta liðið allt upp í 11-12 tímar á milli gjafa hjá honum. Ég hef því tekið upp á því að mjólka mig í pela annað hvort áður en ég fer að sofa eða ef ég vakna á nóttunni og get ekki sofnað vegna sársauka í brjóstunum. Ég vil síður trufla svefninn hjá honum með því að vekja hann. Er þetta kannski vitleysa hjá mér? Truflar þetta jafnvægið á brjóstagjöfinni að vera að mjólka sig svona? Ég hendi ekki mjólkinni heldur læt hann drekka úr pelanum í næstu gjöfum eftir hentugleika. Í síðasta lagi sólarhring seinna. Þetta er farið að gerast æ oftar, jafnvel daglega og barnið er því farið að fá pela nánast á hverjum degi. Mig vantar eiginlega smá ráðgjöf hvað þetta varðar. Ég hef líka verið að spá hvernig ég eigi að mjólka mig í þessum tilfellum. Ætti ég að mjólka eins mikið og ég get eða bara rétt að létta á þrýstingnum til að geta sofnað?


 

Sæl og blessuð!

Það er gott að brjóstagjöfin gengur vel en í mínum augum ertu að gera hana óþarflega flókna. Ef að þú vaknar um miðja nótt með óþægindi í brjóstunum er eðlilegra að vekja barnið og láta það sjúga. Þá er vandamálið afgreitt og brjóstin fá svo í ró og næði að aðlagast mynstri barnsins. Það gerist ekki ef þú að mjólka og færa gjafir til fram og aftur og því vindur vandamálið upp á sig.

Vona að þetta gangi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. október 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.