Síendurteknar stíflur í brjóstum

21.01.2012

Sæl!

Ég eignaðist stelpu þann 24. september sl. og hefur gengið vel með hana þó ég hafi verið ansi lasin eftir fæðinguna. Mér tókst að halda mjólkinni þrátt fyrir öll veikindin og þyngdist stelpan um heilt kíló fyrstu 4 vikurnar. Hún hefur haldið áfram að braggast vel. Ég er hins vegar búin að vera í dálitlum vandræðum með brjóstagjöfina. Ég fæ síendurteknar stíflur og finnst ég alltaf vera að mjólka allt of mikið. Það má ekki skeika neinu svo stíflur myndist. Ég reyni að spara að mjólka mig en stundum er ég bara það slæm að ég neyðist til þess. Ég legg heitt á brjóstið fyrir og á meðan á gjöf stendur og síðan kalt að gjöf lokinni. Stelpan drekkur á um 2 klst. fresti yfir daginn. Ég gef henni um miðnætti og svo milli 4-6 á nóttunni. Hingað til hef ég þurft að fara 2x á sýklalyf en í hin skiptin hefur mér tekist að ná stíflunum áður en sýking hefur komist í þær. Nú hefur þetta ástand varað meira og minna í tvo mánuði ég orðin langþreytt. Inn á milli líður mér ágætlega. Getur verið að það sé enn svona mikið ójafnvægi á mjólkurframleiðslunni? Eru einhver ráð sem þú getur gefið mér til að minnka framleiðsluna eða minnka líkur á stíflum?

Kær kveðja, mjólkurgeit.


 

Sæl og blessuð Mjólkurgeit!

Ójafnvægi í framleiðslu getur varað lengi og verið nauðsynlegt að laga. Ég er sammála að lýsingin bendir til ójafnvægis. En það er ýmislegt sem þú getur gert. Gjafamynstrið hljómar vel svo það er ekki ástæða til að breyta því en þú átt bara að gefa eitt brjóst í hverri gjöf. Ef þú ert að gera það þá þarftu að gefa sama brjóstið 2 gjafir í röð og skipta svo og gefa hitt í 2 gjafir í röð o.s.frv.. Þetta skilar árangri eftir 3-4 daga. Svo þarftu að passa að ekkert þrengi að brjóstunum, breyta um gjafastellingu í hverri gjöf og stoppa allan mjólkurleka. Það er svo stundum mælt með að taka inn Lesitín fæðubótarefni ef að síendurteknar brjóstastíflur eru vandamál.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. janúar 2012.