Síendurteknar sveppasýkingar á brjóstum

15.02.2009

Sæl !

Mig vantar smá ráðleggingar. Ég á 5 og 1/2 mánaðar son og hefur brjóstagjöfin gengið vel en ég er endalaust að fá sveppasýkingar. Og þá aðallega í annað brjóstið. Ég er 2 sinnum búin að fá mixtúru sem ég hef borið á brjóstin og í munn barnsins og 2 sinnum fengið töflur. Ásamt því að fá ráðleggingar frá brjóstaráðgjafa um þrif á öllu og hent snuddum og hvað eina. En allt er fyrir ekkert og ég næ ekki að losna við þetta! Núna er svo komið að ég þyrfti að fara fá 5 skammtinn, og er ég varla að leggja í þetta lengur. Enda er þetta líka frekar vont. Þetta er 3 barnið mitt og hef ég aldrei lent í þessu áður. Hinar 2 brjóstagjafirnar hafa gengið eins og í sögu. Er þetta vonlaust mál hjá mér? Einnig var barnið að greinast með mjólkurofnæmi. Þarf ég þá ekki að passa það sem ég borða? Eða skilar það sér ekki í brjóstamjólkina?

Kveðja. Ein sveppuð :o)

 


Sæl og blessuð!

Það er afar þreytandi að kljást við síendurteknar sveppasýkingar á vörtum. Það er þó búið að finna ýms góð ráð sem gagnast vel. Þau þarf stundum að nota til skiptis eða öll saman og á endanum skila þau árangri. En þetta er erfiður tími og oft mikill sársauki sem fylgir. Ef meðferðin fram að þessu hefur verið rétt getur þurft að leggja meiri vinnu í að finna orsök endursmits. Hún getur leynst víða. Það þarf að skoða alla fjölskyldumeðlimi og þá sem snerta barnið með tilliti til sveppa, umhverfi barnsins og fara út í hreinlætisaðgerðir sem beinast sérstaklega að öllu sem snert gæti barnið og brjóstin. Ef þú ert með leiðbeiningar um sveppasýkingar er gott að fara yfir kaflann um endurteknar sveppasýkingar og nota þær.

Varðandi mjólkurofnæmi þá er aðalatriðið að forðast að borða allt sem mjólk er í. Það er ótrúlega margt þegar maður fer að kanna það. Í mjög mörgum unnum vörum er mjólk eða mjólkurafurðir.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. febrúar 2009.