Sílikon - áhyggjur

13.08.2007

Halló og takk fyrir góðan vef!

Hef áhyggjur af því að ég finn fyrir hörðu svæði í báðum brjóstum fyrir aftan geirvörtur þegar ég kreisti þau. Fór í brjóstastækkun fyrir þó nokkrum árum og er nú langt komin á meðgöngu. Á dálítið erfitt með að skoða brjóstin, er viðkvæm, en finnst þetta þó ekki vera eins og litlir hnúðar, frekar tvö stór þykkildi í brjóstum bakvið geirvörtur. Hingað til hefur allt gengið vel með brjóstin en hef áhyggjur af brjóstagjöfinni því ég vil ekkert frekar en að geta gefið barninu mínu brjóst.

Með von um hjálpleg svör. A


Sæl og blessuð A.

Mér finnst ólíklegt að þetta sé eitthvað óeðlilegt. Ef aðgerðin hefur verið gerð hér á landi eru allar líkur á að púðarnir séu mun aftar en „rétt fyrir aftan“ geirvörturnar. Þar finnur maður hins vegar oft fyrir hörðu (þéttu) svæði sem oftast er kallað stilkur. Það liggur frá vörtum aftan til og beint inn í brjóstið. Ég ráðlegg þér þó að fá skoðun líka til að þú getir spurt þeirra spurninga sem þér liggja á hjarta. Að sjálfsögðu eru yfirgnæfandi líkur á að þú getir haft barnið þitt á fullri brjóstagjöf eins og hver önnur. Þú þarft bara að fá gott start þ.e. barn sem sýgur oft og lengi fyrstu 2 dagana rétt eins og aðrar konur.

Gangi þér vel.   

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. ágúst 2007.