Silikon fylling í brjóstum

13.03.2006

Sæl!

Mig langaði að forvitnast, þar sem ég er með silikon fyllingu í brjóstunum, er komin um 6 vikur á leið og eru brjóstin vægast sagt mjög stór og það er mjög óþægilegt. Stækka þau bara endalaust eða hjaðnar þetta með tímanum? Eins langaði mig að spyrja hvort ég gæti ekki örugglega haft barnið á brjósti þrátt fyrir púðana. Mig langar að hafa það allavega allt að 6 mánuði á brjósti, er ólíklegt að það sé mögulegt með púðana? Hefur það aukin óþægindi í för með sér?

Annars takk fyrir frábæran vef, vona að ég fái svar fljótlega :)

...........................................................................................................

Sæl og blessuð.

Brjóstin stækka ekki endalaust. Þau stækka mest á fyrstu 3 mánuðunum og svo aðeins aftur á síðustu vikunum fyrir fæðinguna.Það er ekki hægt að segja að þetta hjaðni fyrr en kringum 6 vikum eftir fæðingu en þú aðlagast ástandinu að einhverju leyti.  Jú, þú getur örugglega haft á brjósti og það hefur ekki aukin óþægindi í för með sér þótt brjóstin innihaldi púða. Þú þarft að passa að brjóstagjöfin fari eðlilega af stað á fyrstu dögum eftir fæðingu svo þú fáir ekki stálma. Það þýðir að þú átt að leyfa barninu að sjúga alltaf þegar það vill það. Þú mátt ekki setja það í „geymslu“ á nóttunni. Þá líður of langt á milli sogtíma og það hefur slæm áhrif á brjóstin. Þú verður líka að passa að það fái aldrei snuð eða ábót því það er tapaður sogtími.  Það má segja að eini munurinn á brjóstagjöf með púða sé að þær konur þurfa að gefa brjóst pínulítið oftar en konur með stór brjóst. Þetta þurfa reyndar líka konur með lítil brjóst að gera. Framleiðslan er jafngóð en „lagerrýmið“ er minna.

Með kveðju og ósk um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. mars 2006.