Datt í hálku

03.01.2007
Sælar kæru ljósmæður
Mig langar að spyrja ykkur um hættuna af því að detta. Ég er komin 16
vikur á leið og datt í hálkunni áðan og lenti á mjöðminni. Ég finn ekki
fyrir neinu sérstöku eftir þetta óhapp en er svolítið hrædd. Mig langar
því að spyrja ykkur hvað geti gerst við að detta á meðgöngu og hvort ég
þurfi að fara td. til læknis út af þessu.

Kveðja og þakkir fyrir góðan vef.


Sæl og blessuð!
Það er nú orðið svolítið síðan þú dast þannig að þetta svar berst þér sennilega of seint til að hughreysta þig.
Svona snemma á meðgöngu er afar ólíklegt að fall á mjöðmina hafi haft slæm áhrif, barnið er vel varið í grindinni, umvafið legvatni og leginu sem verndar það.
Ef þú ert  óróleg með þetta eða finnur fyrir einhverjum einkennum sem eru öðruvísi en venjulega er alveg sjálfsagt að hafa samband við ljósmóðurina þína og fá að koma í aukaskoðun.

Bestu kveðjur
Halla Björg Lárusdóttir
Ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
2.janúar, 2007.