Skiptigjöf

10.02.2013
Sælar og takk fyrir góðan vef!
Mig langaði að spyrja hvað þið eigið við með skiptigjöf?

Sæl og blessuð!
Það hefur skapast sú hefð að nota þetta orð yfir ákveðið gjafamynstur. Mynstrið er þannig að barnið er lagt á brjóst og látið sjúga stutta stund. Kannski 5-10 mín. Þá er skipt um brjóst og hitt brjóstið gefið í svipaðan tíma. Þá er skipt aftur og barnið látið vera styttra eða ekki meira en 5 mín. Þá er skipt aftur og líka haft í um 5 mín. Svo skipt aftur í 5 og aftur í 5. Það eru reyndar til ýmsar útgáfur af skiptigjöf og þá er miðað við það mynstur sem hvert einstakt barn hefur fyrir. Það er ekki talið heppilegt að nota skiptigjöf mikið eða að staðaldri en hún er gjarnan notuð til að laga eitthvað sem er ekki nógu gott. Til að mynda er skiptigjöf notuð hjá börnum sem eru óánægð á kvöldin og þá gjarnan er fyrsta brjóstið haft lengra (10-20 mín.). Svo er skiptigjöf notuð fyrir börn sem eru farin að berjast við brjóstið og þá er alttaf skipt þegar barn fer að ókyrrast. Í fleiri tilfellum er gripið til skiptigjafar en ekki ástæða til að telja allt upp hér. Þetta er þær algengustu.
Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. febrúar 2013.