Spurt og svarað

22. febrúar 2015

Slæm reynsla af brjóstagjöf

Góðan daginn!

Ég er gengin 10 vikur af mínu öðru barni. Fyrir á ég lítinn stubb sem flýtti sér í heiminn á 34 viku án nokkura skýringa. Brjóstagjöfin gekk hræðilega. Ég píndi mig áfram í fimm mánuði en hann tók alveg 4 vikur bara að taka brjóstið en þá var alltaf svo lítil mjólk. Er eitthvað sem ég get gert til að fyrirbyggja að þetta komi fyrir aftur? Get ég gert eitthvað sérstakt til að örva mjólkurframleiðsluna. Einnig hef ég miklar áhyggjur af að eiga aftur fyrir tímann.Er eitthvað sem ég þarf að gæta að til að reyna að koma í veg fyrir það?
Sæl og blessuð!

Já, þú getur undirbúið þig betur í þetta sinn með því að kynna þér hvernig mjólkurframleiðsla gerist. Hvað það er sem setur hana af stað, hvernig hún virkar, hvernig má stjórna henni o.s.frv. Það getur hjálpað þér að læra handmjólkun áður en barnið kemur. Ef barnið er óduglegt að örva þig fyrstu dagana þá handmjólkar þú brjóstin á milli gjafa. Þá áttu smá mjólk til að gefa því og svo örvarðu í leiðinni brjóstin til að framleiða meira. Aðalatriðið er svo auðvitað að fá barnið á brjóst fljótt eftir fæðinguna og láta það sjúga oft og mikið fyrstu dagana. Þá ættirðu að fá gott start.

Varðandi fæðingu fyrir tímann þá er lítið sem þú getur gert til að koma í veg fyrir hana. Spyrðu mæðraverndarljósmóður þína út í það. Það skiptir kannski máli hvernig þetta var síðast.

Með bestu óskum um gott gengi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. febrúar 2015.

 

 


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.