Smávægilegir erfiðleikar í brjóstagjöf

10.10.2009

Takk fyrir góðan vef!

 Ég er með unga dömu rúmlega fjögurra mánaða. Hún tók brjóstið strax í byrjun en mér hefur aldrei fundist að hún njóti þess að drekka. Hún er alltaf á iði þegar ég er að gefa henni. Það er heilmikill loftgangur í henni og hef ég tekið eftir því að þegar hún þarf að leysa vind fer hún að sperra sig og reigja. Sú stutta hefur verið að þyngjast eins og hún á að gera. Mér hefur fundist upp á síðkastið hún vera óróleg á kvöldin og ekki vilja brjóstið. Sýgur í nokkur skipti en ekki nógu lengi til þess að koma rennslinu í gang og verður þá mjög pirruð og neitar að taka. Ég hef það á tilfinningunni að hún hafi verið að sofna svöng upp á síðkastið. Hún hefur verið að vakna upp 4 til 6 sinnum til þess að drekka og er síðan vöknuð milli 7 og 8 um morguninn. Áður vaknaði hún að meðaltali 2 sinnum á nóttu. Ég byrjaði að taka cerazett pilluna fyrir um 2 mánuðum síðan og mér finnst ég hafa verið meira og minna á blæðingum síðan þá. Getur það haft áhrif á brjóstagjöfina? Við erum hvorugar að njóta brjóstagjafarinnar. Ég á eldra barn og gekk sú brjóstagjöf mjög vel og var það nánast alltaf sem að hann slakaði vel á og sofnaði á brjóstinu. Á daginn er hún að drekka 4-5 sinnum en er alltaf mjög fljót að drekka. Hún sefur mjög vel á daginn. Það er þetta vesen með kvöldgjafirnar og hversu oft hún er farin að vakna á nóttunni og  er vansæl á kvöldin. Getur mjólkin verið að minnka hjá mér? Við erum yfirleitt í rólegu umhverfi þannig að það eru ekki læti sem trufla hana. Ég prófaði í gærkveldi að gefa henni pela ca. 100 ml. sem ég hafði mjólkað í um daginn Hún tók hann vel og kláraði bara svona 60 ml. Eftir það náði ég henni rólegri á brjóstið það virtist að hún væri rólegri en hún svaf ekkert betur í nótt. Ég vil helst ekki þurfa að gefa henni ábót aðra en brjóstamjólk og ekki graut fyrr en um 6 mán aldurinn.

MBK.

 


Sæl og blessuð MBK.

Það getur reynt á þolrifin að vera með barn sem fer í svona vansældarkast á kvöldin. Því er mikilvægt að reyna að laga það eins og hægt er. Mjólkin þín minnkar náttúrlega ekkert þegar svona langt er liðið á brjóstagjöfina nema barnið dragi úr drykkjunni. Sumum finnst pillutaka hafa truflandi áhrif en þessi tegund á að hafa hverfandi áhrif á brjóstagjöf. Það sem getur truflað er spennan sem myndast milli ykkar í gjöfinni sjálfri. Því myndi ég ráðleggja þér að setja sjálf mjólkurrennsli af stað áður en barnið kemur á brjóstið. Þú getur sett heitan bakstur á brjóstið í smástund og síðan nuddað það og strokið mjúklega og mjólka svo þar til kemur rennsli. Þá leggurðu barnið á brjóst og þegar barnið fer að slíta sig af skiptirðu um brjóst og svo aftur þegar það byrjar að vesenast.

Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. október 2009.