Smellir við brjóstagjöf

12.10.2006

Sælar og takk fyrir góðan vef. 

Málið er að ég á 4 mánaða tvíbura sem hafa fengið þurrmjólkurábót frá 4 vikna aldri vegna þess að þau hættu að þyngjast. Strákurinn hefur aldrei tekið snuð en stelpan er farin að sjúga á sér puttann.  Alltaf þegar ég er að gefa stráknum hvort heldur brjóst eða pela þá heyrast smellir í honum. Þær í ungbarnaeftirlitinu sögðu að þetta væri vegna þess að hann sleppir alltaf takinu á vörtunni og síðan ekki söguna meir!  Ég var að lesa áðan á síðunni að til þess að losna við þetta hljóð þá væri gott að gefa útafliggjandi, en málið er að ég er nýhætt aðgefa honum útafliggjandi vegna þess að hann var farinn að nota mig sem snuð! Svo spurningin mín er hvað er hægt að gera til þess að losna við þetta hljóð?  Er þetta eitthvað hættulegt? Sæl og blessuð!

Það heyrist stundum svona hljóð þegar börnin eru að sjúga - oftast er það vegna þess að þau taka vörtuna ekki nógu vel upp í munninn, oft þegar þau taka vörtuna frekar grunnt. Hann er búinn að gera þetta svo lengi og úr því hann smellir líka við pelagjöf þá væri gott hjá þér að fá ljósmóður eða hjúkrunarfræðing að horfa á með þér hvernig barnið tekur vörtuna. Þú getur prófað að halda honum þétt að brjóstinu, og passa að barnið sé í sömu hæð og geirvartan/brjóstið einnig getur verið gott að strjúka geirvörtunni niður frá nefi að munni hjá honum því þá opna börnin oft vel munninn og taka vörtuna vel upp í sig. Þetta er ekkert hættulegt þó börnin geri þetta.  

Gangi þér vel,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. október 2006.