Spurt og svarað

14. janúar 2010

Snuð eða ekki snuð

Ég eignaðist mitt 3. barn fyrir 8 vikum og tók strax þá ákvörðun að nota ekki snuð. Fyrsta barnið mitt hafði mikla sogþörf og þurfti á snuði að halda en miðbarnið vildi aldrei sjá það. Barnið er alveg sátt snuddulaust og er vær. En þegar ég sagði vinnufélögum mínum (þær vinna í ungbarnavernd) frá því að hún notaði ekki snuð urðu þær mjög hissa og sögðu að nýjustu rannsóknir sýni að börn sem noti ekki snuð séu í áhættu hvað varðar vöggudauða. Á ég að fara gegn sannfæringu minni að nota snuð? Er þetta einhver ein rannsókn eða eru það fleiri sem sýna þetta? Er ég að stofna barninu í hættu með þessari sérvisku minni. Ef svo er þá kaupi ég náttúrulega snuð! Takk fyrir góðan vef.

Elín.


 

Sæl og blessuð Elín!

Það er mjög gott að þú farir eftir þinni sannfæringu og notir ekki snuð. Eins og þú ert búin að finna út þá eru börn mjög misjöfn hvað þetta varðar. Svo eru fullorðnir líka með mjög misjafnar skoðanir á þessu og vilja gjarnan alhæfa eftir reynslu af 1-2 barni. Það er gjarnan sagt meðal heilbrigðisstarfsfólks -meira í gríni- að ef börn þyrftu raunverulega á snuði að halda þá myndu þau auðvitað fæðast með þau. Já, það er rétt hjá þér að það var bara um eina rannsókn að ræða og hún var mjög umdeild á sínum tíma og jafnvel dregið í efa hversu vel hún væri unnin. Þannig að þú ert í góðum málum með þitt snuðlausa barn.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. janúar 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.