Spurt og svarað

15. maí 2011

Snuð eða ekki snuð?

Sælar kæru ljósmæður!
Eftir að hafa lesið mér til um snuð og snuðnotkun á netinu hef ég áttað mig á því að þið eruð almennt ekki hlynntar snuðnotkun. Mig langar þó að biðja ykkur um álit á hvað ég eigi að gera varðandi 12 vikna dóttur mína sem vill alls ekki snuð. Hún vill BARA brjóst og helst nota það sem bæði snuð og svefnaðstöðu (notar brjóstið stundum sem "kodda" á næturnar). Ég myndi glöð helga sólarhringinn dóttur minni ef ég teldi það gott fyrir hana. En afleiðingarnar eru orðnar þær að hún verður miður glöð ef hún er lögð niður og á að sofa áfram sjálf. Hún vaknar eftir um 5-15 mínútur ef hún liggur ekki hjá mér eða sefur úti í vagni. Hún virðist hafa ríka sogþörf og er farin að myndast við að nota þumalfingurinn sem mér finnst ekki æskilegt, en kannski er það vitleysa. Hún var orðin 5 vikna þegar ég kynnti hana fyrir snuðinu og frá byrjun hefur hún þanið raddböndin um leið og ég set það upp í hana. Það er þá einna helst ef ég set það upp í hana þegar hún er sofnuð á brjóstinu og mér finnst e-ð ekki rétt við það. Hversu mikið á ég að leggja mig eftir að venja hana á snuð eða þumalfingur? Eitt að lokum. Ég las sem ráð að ein mamman hafði notað Glýseról á snuðið til að fá barnið til að taka snuð. Er það ráðlagt?
Kveðja Erla.
 
Sæl og blessuð Erla!
Það er misskilningur að ljósmæður séu ekki hlynntar snuðnotkun. Þær mæla hins vegar flestar með því að beðið sé með það fyrstu 2-3 vikurnar eða þangað til að börn eru orðið örugg í sínu brjóstasogi. Snuð er að sjálfsögðu frábært hjálpartæki fyrir nútímamæður. Ég ráðlegg þér að halda áfram að bjóða barninu snuð og sérstaklega þegar það er hálfsofandi eða sofandi. Það er ekkert athugavert við þá aðferð. Ef það venst snuðinu í svefni þá er líklegra að það samþykki það í vöku. Ef þér finnst þumalfingursog óæskilegt þá reynirðu að passa að hún fari ekki þá leið. En nei, þú átt alls ekki að setja Glyseról eða neitt annað á snuðið.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. maí 2011.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.