Snýr sér og hristir höfuð á brjósti

29.05.2014

Ég er með eina sex vikna sem er byrjuð að snúa og hrista höfuðið eftir nokkrar mínútur á brjósti. Brjóstagjöfin fór brösuglega af stað en eftir um 4,5 vikur fannst mér allt vera að detta í lag. Sársaukinn sem var í upphafi var nærri horfinn og brjóstagjöfin sársaukalaus. Núna síðustu daga byrjar hún að drekka og drekkur í 4-5 mínútur. Eftir það verður allt vitlaust. Hún byrjar að snúa höfðinu niður, reigja sig og teygja og þetta er ofboðslega sárt fyrir mig. Hún gerir það sama á báðum brjóstum en geirvörturnar koma alltaf fínar út og engin sár. Ég var búin að fá grænt ljós að hún tæki brjóstið rétt og því virðist ekki vera sem hún sé búin að breyta því neitt. Það er alltaf einhver tog-tilfinning í brjóstinu á meðan hún drekkur og svo eykst tog-tilfinningin og finnst mér verkurinn bæði á brjóstinu utanverðu og svo inni í því. Ég tek hana af brjóstinu og læt hana ropa (hún ropar eftir hverja gjöf, ansi hressilega í flest skipti) en þá er nánast ómögulegt að fá hana til að drekka aftur. Eftir þessar gjafir er ég með alls kyns verki í brjóstinu og geirvörtunni, upp í svona 2 tíma á eftir. Ég hef verið að gefa eitt brjóst í gjöf en ég held það sé ekki séns að halda þetta út til 6 mánaða aldurs. Ég hef prófað að mjólka mig með handpumpu og það gengur ekkert á kvöldin en ég næ á stuttri stundu um 75-100ml. úr vinstra brjóstinu á morgnana. Ég veit því ekki hvort of lítil eða of mikil mjólkurframleiðsla getur valdið þessum höfuðsnúningi og vandræðum. Hvað getur valdið þessu og er von til þess að hægt sé að hjálpa mér að laga þetta svo ég geti haldið áfram að gefa henni brjóst?


Sæl og blessuð!

 Já, það er vel hægt að laga þetta ástand. Þú ert mjög líklega með ástand sem kallað er of hratt mjólkurflæði. Þú getur lesið um þetta í gömlum fyrirspurnum og svörum en aðalatriðið er að grípa sem fyrst inn í og laga þetta. Það er gert með breytingum á stellingum og kliptaki á brjóstinu rétt fyrir utan munn barnsins. Klipinu er haldið þétt fyrstu 3-4 mínúturnar og svo losað hægt og varlega. Mjólkurframleiðslan þín er trúlega hæfileg og gott hjá þér að gefa 1 brjóst í senn. Varðandi verkina sem þú talar um, þá gætu þeir haft aðra orsök sem þyrfti að kannna nánar. Gott væri ef þú gætir hitt brjóstajgafaráðgjafa en þangað til ættirðu að prófa heita bakstur á vörtutoppinn strax og hún kemur út úr munni barnsins. Vonandi verður þetta til þess að brjóstagjöfin haldi áfram og verði þér þægileg.

Bestu óskir.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. maí 2014.