Spurt og svarað

11. febrúar 2010

Sofið á nóttunni með barn á brjósti

Í stuttu máli hefur brjóstagjöfin gengið eins og í sögu. Það sama verður ekki sagt um að koma góðum svefnvenjum á. Nú er svo komið að ég sé ekki önnur úrræði en að hætta með 13 mán. stelpuna mína á brjósti. Ekki af því að mig langi til þess heldur detta mér einfaldlega engin önnur úrræði í hug og er orðin svo langþreytt á svefnleysi. Stelpan virðist ekki ætla að sleppa mér á nóttunni og gargar á mig þar til að ég gefst upp. Ég er búin að gera fjölmargar tilraunir m.a. passa að hún sofni ekki út frá brjóstagjöf, fá svefnráðgjöf, sofa í öðru herbergi ofl. ofl. Hún virðist ekki skilja að það sé í boði að fá brjóstið á daginn en ekki á nóttunni. Ég velti því stundum fyrir mér hvort hún verði svöng af því einu að sjá mig. Fyrst í haust var maðurinn minn alveg á því að styðja mig í þessu þegar ég byrjaði að vinna. En núna hálfu ári síðar og ég er enn að vakna 2-3 á nóttunni og baugarnir undir augunum virðast dökkna með hverjum deginum. Ég þarf að standa undir stöðugri gagnrýni frá öllum í kringum mig að ég eigi að hætta þessu "brjóstagjafaveseni". Mér finnst verið að stilla mér upp við vegg. Hvað er til ráða? Er virkilega ekki hægt að blanda þessu tvennu saman? Vera með barnið á brjósti og koma á góðum svefnvenjum.

Kv. Ein svefnlaus.

 


Sæl og blessuð „Ein svefnlaus“!

Þetta er eitt af þessum atriðum sem hver móðir verður að finna út fyrir sig og sitt barn. Börn eru jú eins misjöfn og þau eru mörg. Það er vel hægt að sofa ágætlega og hafa barn á brjósti. Það þarf bara að finna réttu aðferðina. Það er t.d. umhugsunarvert af hverju barnið vaknar svona oft á nóttunni. Það getur bent til þess að hún fái ekki nóg að borða á daginn. 3 gjafir að nóttu gefur mjög stóran hluta af næringunni. Ef þú gæfir 3 gjafir að kvöldi gætirðu minnkað þessa þörf. Stór máltíð seint um kvöld og jafnvel bað gefur oft góða raun. Svo er spurning hvernig staðið er að næturgjöfunum. Er eitthvað við þær sem barninu finnst sérstaklega spennandi? Fær það mikla athygli móður sem það fær annars minna af. Er eitthvað öðruvísi við þær en aðrar gjafir? Sumum finnst gefast vel að hafa barnið hjá sér og þegar barnið rumskar sé því rétt brjóstið. 5 mínútum síðar eru allir sofnaðir aftur og raskið er þá eins lítið og hugsast getur. Mörgum börnum finnst þetta ekki eins spennandi gjafir og þetta þýðir líka betri nætursvefn móður.

Vona að þetta hjálpi eitthvað.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. febrúar 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.