Sofnar á brjósti á kvöldin

20.11.2006

Sælar!

Ég er með fjögurra mánaða strák, er búin að vera með hann eingöngu á brjósti. Það voru byrjunarörðugleikar sár, sýking, bólgur ofl. en með frábærri hjálp og stuðning brjóstagjafaráðgjafanna og ljósanna í Hreiðrinu gengur það glimrandi núna og langar mig að hafa hann sem lengst á brjósti. Hann sofnar alltaf á brjósti á kvöldin. Mér finnst það voða notalegt að svæfa hann þannig uppi í rúmi en er ég að gera rétt með því. Hann drekkur og drekkur og svo sofnar hann og heldur áfram að sjúga og hættir svo þegar hann er vel sofnaður. Ég sofna svo líka, þetta truflar mig og manninn minn ekkert en er þetta ekki allt í lagi. Maður er eitthvað svo hræddur um að gera vitleysu eða að vera að búa til seinni tíma vandamál. Ég hef verið að lesa um að maður eigi ekki að tengja svefn barna alltaf við mat ofl. Annað, er eitthvað því til fyrirstöðu að fara í laser aðgerð á auga þegar maður er með barn á brjósti?

Takk fyrir frábærann vef!


Sæl og blessuð.

Það er mjög eðlilegt að börn sofni á brjósti sérstaklega ef þau eru þreytt og náttúrulega yndislegasta leiðin til að sofna frá sjónarhóli barnsins. Á þessum aldri á þó sumum eða jafnvel flestum gjöfum að ljúka í vakandi fasa en eins og ég segi notalegustu gjafirnar enda yfirleitt með svefni. Það er ekkert slæmt við það og skapar ekki nein framtíðarvandamál. Þeir sem halda því fram eiga eitthvað í land með að skilja ungbörn til fullnustu. Alltaf þegar þú rekst á svona vafamál geturðu sest niður og sett þig í spor barnsins. Þá ættirðu að eiga auðvelt með að koma auga á svarið. 

Nei, það er ekkert því til fyrirstöðu að fara í laseraðgerð á augum með barn á brjósti. Passaðu bara að það trufli gjafirnar ekki. Þú getur gefið áður en þá ferð í aðgerðina og strax á eftir og svo alveg áfram þótt þú fáir verkjalyf o.s.frv.       

Bestu kveðjur, 

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. nóvember 2006.