Spurt og svarað

17. ágúst 2006

Söfnun mjólkur

Sælar

Ég á eina rétt tæplega 3 mánaða og hefur allt gengið vel fram að þessu, en nú finnst mér eins og ég hafi miklu minni mjólk í brjóstunum.  Hún hefur aldrei fengið ábót og ég hef aðeins verið að mjólka mig vegna þess að í september byrja ég að vinna einn dag í viku í 5 tíma og vil helst að henni verði gefin brjóstamjólk á meðan að ég er í burtu þannig ég er byrjuð að undirbúa mig fyrir þann tíma.  Áður hafði ég alltaf tilfinningu um að ég væri "full" af mjólk í brjóstunum en nú hef ég meira tilfinningu um að vera "tóm" ,auk þess gat ég auðveldlega mjólkað 150ml (að morgni) í pela eftir að stelpan mín drakk, en nú er flæðið mun minna. Er ég að missa mjólkina? Hvernig get ég aukið flæðið svo ég nái aðeins að safna mjólk? Hvernig áhrif hefur það á mjólkina hjá mér ef stelpan mín þarf að fá þurrmjólk eina gjöf í viku?


Sæl og blessuð.
Eins og ég hef komið inn á í fleiri svörum að undanförnu þá er hér um aðlögun brjósta að ræða. Fyrri aðlögunin er um 6 vikna aldurinn. Þá er bjúgur að hjaðna endanlega og viðbrögð fara ekki af stað í brjósti þótt einhver tími líði milli gjafa. Það hættir líka að leka úr brjóstunum. Margar konur halda að mjólkin sé að minnka um þetta leyti.
Síðan kemur seinni aðlögunin um 3ja mánaða aldurinn. Þá fer stjórn framleiðslu undir barnið og brjóstin svara nær eingöngu örvun frá barninu. Þættir sem áður höfðu áhrif á tilfinninguna í brjóstunum hætta því. Þetta gerir það að verkum að margar mæður lenda í erfiðleikum með að mjólka sig því brjóstin svara illa mjaltavél eða pumpu. Margar mæður verða lítið varar við þessa aðlögun en þær sem eru að mjólka sig og þá helst þær sem mjólka sig alfarið verða harkalega vara við þetta.
Svörin við þínum spurningum eru því: Nei, þú ert ekki að missa mjólkina. Hún er nákvæmlega jafn mikil og barnið þarfnast. Þú getur smáaukið mjólk sem kemur við pumpun með æfingu og þrautseigju, en þú þarft væntanlega að mjólka í fleiri skipti til að fá tilætlaðan skammt. Stelpan þín þarf ekki þurrmjólk einu sinni í viku en ef þú gæfir henni hana þá hefði það áhrif á mjólkurframleiðsluna til einhverrar minnkunar. Fyrst og fremst hefði það þó slæm áhrif á dóttur þína. Þannig að haltu bara þínu striki. Þetta hljómar vel hjá þér.
Vona að þetta svari þínum spurningum.

Katrín Edda Magnúsdóttir, l
jósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
17.08.2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.