Spurt og svarað

15. ágúst 2005

Söfnun mjólkur

Þar sem ég er að fara í nám í haust ætlaði ég að byrja að safna mjólk svo pabbinn gæti staupað krílið á meðan ég sæki tíma. Það sem mig langar að vita er hvernig er best að haga málunum þegar brjóstapumpa er notuð þ.e.a.s. hvenær er best að nota hana, hvort það sé þegar ég finn að brjóstin eru full, fyrir eða eftir að barnið hefur drukkið eða fá einhvern til að mjólka hitt brjóstið meðan barnið er á öðru. Er betra að gera þetta á morgnanna eða kvöldin? Barnið er núna 5 vikna og brjóstagjöfin hefur gengið vel.
Takk fyrir góða síðu.

..........................................


Sæl og blessuð.

Það eru í sjálfu sér til margar aðferðir við svona söfnun mjólkur. Ég ætla að nefna eina þeirra sem ég veit að hefur gefist vel en það er ekki þar með sagt að hún henti þér. Vertu óhrædd við að prófa eitthvað sem þú heldur að geti hentað þér betur.  Það er heppilegt að mjólka sig 1-2 sinnum á dag. Það fer eftir magninu sem kemur. Það er verið að miða við að eiga í 1 gjöf og það er misjafnt hvort konur ná því í einni mjöltun eða hvort þurfi tvær mjaltir. Það er ekki heppilegt að mjólka oftar daglega upp á að hleypa brjóstunum ekki í of mikla framleiðslu því það getur kallað á vandræði. Stöku kona þarf þó að eiga meiri mjólk og þarf þar af leiðandi að mjólka sig oftar og það getur gengið.
Það er best að mjólka sig mitt á milli gjafa eins og hægt er að koma því við og í guðanna bænum ekki hafa áhyggjur af brjóstagjöfinni næst á eftir. Barnið fær alveg næga mjólk.  Flestum gefst best að mjólka sig fyrri hluta dags t.d. snemma á morgnana og svo aftur rétt eftir hádegi en þetta er svolítið einstaklingsbundið. Þú passar svo bara að frysta mjólkina strax og það er betra að frysta hana í minni skömmtum en stærri. Þá getur sá sem passar hitað lítinn skammt fyrst og svo annan skammt ef þess gerist þörf. Og svo læturðu þann sem passar vita að brjóstamjólk er aldrei hituð í örbylgjuofni heldur undir rennandi heitu vatni.

Bestu óskir um góða brjóstagjöf og skólagöngu.
               

Katrín brjóstagjafaráðgjafi,
15.08.2005.          

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.