Sótthreinsandi krem og ráð við beittum tönnum

18.01.2009

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

 Þannig er mál með vexti að ég er með einn níu mánaða sem er komin með 5 tennur. Hann er ekki að bíta mig í geirvörturnar en hann skrapar þær þegar hann drekkur  með tönnunum. Svo er hann farin að taka upp á því að "slíta" sig af þegar hann hættir og þá rispar hann hressilega svæðið neðst á geirvörtunni. Ég er komin með sár á báðar geirvörturnar og er farin að finna mikið til í gjöfunum. Þar sem þessi brjóstagjöf hefur gengið svo vel og mig langar til að halda henni áfram allavega fram til eins árs þá langaði mig að athuga hvort þið ættuð einhver ráð við þessu? Einnig hvaða sótthreinsandi krem er gott fyrir geirvörturnar til að koma í veg fyrir sýkingu? Ég hef verið að bera "bactroban“ - held að það heiti það á sárin.

Takk fyrir. Lísa.


 

Sæl og blessuð Lísa.

Þetta vandamál er erfitt við að eiga. Sumar tanngerðir eru þannig að þær eru nær vörtunni en aðrar. Þú getur reynt að venja hann af að slíta sig af með viðbrögðum og hljóðum. Svo geturðu stuðlað að því að tennurnar slípist til með því að gefa honum eitthvað hart að naga. Nýkomnar tennur eru oft mjög hvassar en þær slípast fljótt við notkun.

Varðandi vörturnar þá er mikilvægt að reyna að halda þeim sáralausum. Öll sár þarftu að þvo eftir hverja brjóstagjöf og Bactroban kremið er mjög gott til að drepa algengar tegundir af bakteríum. Þegar barn er hins vegar byrjað að borða þá breytist flóran í munni þess og aukin hætta verður á að fá aðrar tegundir baktería. Við þeim gætu gagnast önnur krem. Ef sár eru enn til staðar eftir nokkra daga eða versna þá þarftu að láta kíkja á þau.

Með bestu kveðjum,
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. janúar 2009.