Spurt og svarað

04. október 2006

Soyaþurrmjólk í fjarveru móður

Ég á eina 3. mánaða sem hefur hingað til eingöngu verið á brjósti og það hefur gengið ágætlega.  Einstaka sinnum hef ég pumpað mig í einn og einn pela til þess að maðurinn minn gæti gefið henni ef eitthvað kemur uppá ef ég þarf að skreppa.  Lillan mín er mjög ákveðin og þegar hún vill mjólkina sína þá vill hún hana núna ;)

Mjólkin hjá mér hefur minnkað að því marki að ég hef ekki nóg til að pumpa líka því að þá klára ég úr brjóstunum. Er því að velta fyrir mér hvort það væri í lagi einstaka sinnum, t.d. tvisvar í mánuði að gefa barninu soyaþurrmjólk á pela ef ég þarf að skreppa frá.  Myndi það eitthvað skemma fyrir lyst hennar á móðurmjólkinni?

Hingað til hef ég ekki getað farið frá henni í meira en 1-2 klst því að ef hún vaknar þá verður allt vitlaust og hún vill brjóstið sitt.

Takk fyrir frábæran vef!Sæl og blessuð!

Þér er alveg óhætt að halda áfram að mjólka þig til að eiga. Það verður ákveðin breyting á stjórnun flæðisins um 3ja mánaða tímann. Þá verður allt í einu miklu erfiðara að mjólka sig. Það þýðir ekki að mjólkin hafi minnkað, þvert á móti er hún oft meiri og þú klárar hana ekki þótt þú mjólkir. En brjóstin svara örvun barnsins nú mun betur en nokkru öðru. Þannig svara þau mjaltavélinni (pumpunni) miklu verr. Þetta er þó hægt að yfirvinna með smá þolinmæði. Til að byrja með þarftu að mjólka 2-3 svar sinnum til að eiga í skammtinn en það þarftu bara í nokkra skammta. Svo fer þetta að ganga betur aftur.

Nei, það er ekki í lagi að gefa soyaþurrmjólk fyrr en eftir 6 mánaða aldur. Og já, það skemmir lyst hennar þannig að hún drekkur minni brjóstamjólk og þá fer mjólkin þín að minnka. Þetta er svolítið erfiður tími með kröfuhörð börn en það jákvæða er að oft eru gjafirnar farnar að styttast mikið um þetta leyti. Vona að þetta gangi.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
4. október 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.