Stálmi

04.08.2004

Sæl!

Maður heyrir mikið talað um stálma en ég finn hvergi neinar upplýsingar um hvað þetta fyrirbæri er í raun og veru. Eins hvort eitthvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir þá? Fá allir svoleiðis og hvað varir það lengi?

Takk fyrir frábæran vef.

.............................................................

Sæl og blessuð!

Orðið stálmi er notað um það aðlögunarferli sem brjóstin fara í gengum þegar broddurinn er að breytast yfir í fullþroska mjólk. Þetta gerist yfirleitt á 2., 3. eða 4. degi eftir fæðingu en getur seinkað ef hægt gengur í byrjun. Ástandið tengist auknu blóðflæði til brjóstanna og bjúgur myndast í vefnum milli mjólkurganganna. Konur fá tilfinningu fyllingar í brjóstin og þau virðast þéttari í sér, jafnvel nokkuð aum. Konur sem fæða fullburða, hraust börn sem eru dugleg að sjúga brjóst fyrstu 2-3 dagana finna yfirleitt lítið eða ekkert fyrir stálma. Konur sem fá slæman stálma (brjóst glerhörð, mjög aum, heit og þrútin) eru oftast með börn sem sjúga sjaldan, lítið, eða illa af einhverjum orsökum eða þau fá snuð og/eða ábót. Þannig að hvort stálmi kemur byggist fyrst og fremst á barninu. Það eina sem þú getur gert til hjálpa er að veita barninu óheftan aðgang að brjóstunum daga og nætur og forðast hvers konar truflanir á brjóstagjöfinni. Besta aðferðin til að draga úr óþægindum af völdum stálma eru svo kaldir bakstrar eftir gjafir.
Stálmi gengur yfir að mestu leyti á u.þ.b. sólarhring og er ástand sem ekki kemur fyrir aftur í þessari ákveðnu brjóstagjöf.

Bestu kveðjur um stálmalausa framtíð.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi - 4. ágúst 2004.