Spurt og svarað

16. júlí 2005

Stálmi og sárar geirvörtur

Þegar ég átti son minn fyrir fimm árum fékk ég mikinn stálma fyrstu daga eftir fæðingu, brjóstin urðu glerhörð og þrútin þrátt fyrir að ekkert amaði að drengnum og hann tæki brjóstið strax af ákafa. Í kjölfarið fékk ég slæmar blöðrur og sár á geirvörturnar þannig að fyrsta mánuðinn grét ég nánast af sársauka í hvers sinn sem ég gaf honum. Sem betur fer var ég þrautseig og lét mig hafa þetta því sárin greru og ég var með drenginn á brjósti í 19 mánuði. Nú á ég von á öðrum dreng og er komin um 5 mánuði á leið. Ég er að spá hvort ég geti eitthvað gert, þegar þar að kemur, til að koma í veg fyrir svona mikinn stálma, blöðrur og sár. Er algengt að svona vandamál endurtaki sig með annað barn eða voru þetta kannski dæmigerð byrjandavandræði?

Bestu kveðjur, V.

..........................................................................

Sæl og blessuð V.

Það er slæmt að hafa svona slæma upplifun í farteskinu þegar von er á nýju barni. En ég get huggað þig með því að slæmur stálmi er orðinn sjaldgæft vandamál nú til dags. Hann er alls ekki dæmigert byrjendavandamál því hann getur í sjálfu sér komið í fyrsta sinn fyrir við fjórða barn. Og til að koma í veg fyrir misskilning þá ætla ég að biðja þig að líta ekki á stálma sem slæmt fyrirbæri. Stálmi er eðlilegt fyrirbæri sem brjóst allra kvenna fara í gegnum. Hann byrjar venjulega á 2-5 degi og stendur í nokkra daga. Margar konur finna ekki fyrir stálmanum en flestar finna óverulegar breytingar á brjóstum. Það þarf að fara eitthvað úrskeiðis með byrjun brjóstagjafarinnar til að stálmi nái að verða eins slæmur og þú ert að lýsa. Ástæða fyrir slæmum stálma er ónógt sog barns á brjósti. Það getur verið:

  1. Of sjaldan sogið t.d vegna þess að barn er undir lyfjaáhrifum frá móður í fæðingunni, barn er haft á barnastofu yfir nótt o.s.frv.
  2. Of stutt sogið t.d. vegna þess að gjöf er rofin eða barn tekið viljandi af brjósti jafnvel endurtekið.
  3. Of illa sogið t.d. lint sog, grunnt sog eða skakkt sog
  4. Barn eyðir sogþörf sinni í eitthvað annað t.d snuð eða það fær ábót og biður því ekki um að sjúga eins og eðlilegt væri.

Stálmi er í raun merki um að byrjun brjóstagjafar gangi ekki eðlilega fyrir sig. Ef stálmi nær að verða slæmur er mikil hætta á sárum vörtum vegna þess að barn á erfitt með að grípa vörtuna rétt þegar hún er orðin mjög þanin. Þú hefur greinilega lent í því. Mér finnst hins vegar með ólíkindum að þú hafir haldið út með sár í heilan mánuð. Ég ætla að biðja þig að hafa í huga að leita þér hjálpar ef þú færð sár. Þau eiga að gróa á örfáum dögum ef rétt er að staðið.
En þín aðal spurning er hvort þú getir komið í veg fyrir slæman stálma og svarið er já. Þú getur auðveldlega komið í veg fyrir stálma. Strax eftir fæðinguna þarftu að leggja á brjóst. Þú þarft að vera alveg viss um að þú lærir að gera það á réttan hátt. Eftir það leggurðu barnið alltaf á brjóst þegar það vill sjúga og leyfir því alltaf að sjúga eins lengi og það vill. Ekki láta það fá neitt upp í munninn annað en brjóstið og ef þú liggur sængurlegu á spítala læturðu það aldrei frá þér lengur en 1 klst. í senn. Þetta á við um fyrstu 3-4 dagana en þeir skipta mestu máli til að koma brjóstagjöf vel af stað. Það á örugglega eftir að koma þér á óvart hversu ljúf byrjun þetta verður.

Með bestu óskum um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.