Spurt og svarað

16. ágúst 2009

Stelling við brjóst/mismunandi ráð

Sælar!

Ég er að verða hálfvitlaus á mismunandi skilaboðum sem ég fæ varðandi brjóstagjöfina frá ljósmæðrum.Vildi þvíprófa að skrifa og heyra hvað þið hafið að segja.

1.Mér hefur verið sagt að gefa vel eitt brjóst, alveg í hálftíma og svo hitt. Einnig hefur mér verið sagt að gefa í 10 mínútur hægra  svo 10 mín. vinstra og svo aftur 10 mín hægra o.s.frv.

2.Hvað varðar stellingu þá hefur mér verið sagt að láta hana taka allan vörtuhringinn og að það sé í lagi að hún hvíli á handleggnum á mér. Þannig að ef hún er að fá úr hægra brjósti þá hvílir hún á vinstri handlegg. Ég forma fyrst vörtuna, held um hnakkann á henni og skelli henni á. Færi hana svo niður á handlegginn þannig að hún hvíli á honum. Einnig hefur mér verið sagt af brjóstagjafaráðgjafa að halda um hnakkann á henni, forma vörtuna og halda því þannig alla gjöfina. Þetta finnst mér rosalega erfitt, þrátt fyrir að reyna að koma púðum fyrir (sem er erfitt þegar báðar hendur eru"uppteknar"). Þá er ég strax orðin stíf í öxlum og í þeim handlegg sem heldur henni upp á hnakkanum.

3.Mér hefur verið sagt að ég geti verið viss um að hún sé búin að fá nóg eftir að hafa verið á brjóstinu (eða báðum) í 1 klst. og þó hún sé að biðja um meira eigi ég að láta hana bíða vegna loftmyndunar, sérstaklega ef hún var farin að sofna. Mér hefur líka verið sagt að gefa henni þó að það verði nær ein samfelld gjöf í 3 klst. Hvað finnst ykkur um þetta?

Bestu kveðjur og þakkir fyrir þennan vef.

 


Sæl og blessuð!

Þetta eru í sjálfu sér allt góð og gild ráð. Slíkar ráðleggingar eru gefnar miðað við aldur barns, hvernig gengur með brjóstagjöfina og miðað við hvert einstakt móðir/barn par. Svo breytast ráðin eftir því sem aðstæður breytast. Það er því ósköp eðlilegt að móðir geti orðið rugluð.

Þú gefur engar upplýsingar um aldur barns eða aðstæður svo ég á mjög erfitt meða að segja hvaða ráð eiga við núna. Í lið 1. er fyrra ráðið almennt en það seinna á við í sérstökum aðstæðum. Í lið 2. á fyrra ráðið við eldri börn og þegar vel gengur en seinni stellingin á við yngri börn og ef erfiðleikar eru í gjöf. Í lið 3. er um einhvern miskilning að ræða. Börn eru yfirleitt búin að fá nóg eftir 20-30 mínútna gjöf. Það getur verið gott að taka smá hlé í 15-20 mínútur en það er ekki vegna loftmyndunar. Og svo er staðreyndin sú að ef barn sofnar þá sleppir það vörtunni og gjöfinni er þá sjálfhætt.

Ég vona að þetta hafi skýrt eitthvað.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. ágúst 2009.

 

 Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.