Stífla í brjósti, hætti brjóstagjöf fyrir 2 vikum

08.01.2006

Hæ, hæ!

Jæja nú er ég með spurningu. Það eru u.þ.b. 2 vikur síðan ég hætti með dóttur mína á brjósti. Var búin að trappa niður og var bara að gefa henni úr hægra brjóstinu því það vinstra náði sér aldrei á strik og kom því engin mjólk þaðan. Alla vega núna er ég allt í einu komin með stíflu í vinstra brjóstið samt hélt ég að mjólkin væri öll farin þaðan enda brjóstið bara mjúkt og 2 vikur síðan dóttir mín drakk úr því. Ég er búin að vera að fara í heita sturtu og bað og nudda brjóstið vel en ég bara spyr er þetta eðlilegt og á ég að vera að mjólka mig, ég er svo hrædd um að ef ég fer að gera það þá fari bara mjólkurframleiðslan öll í gang aftur. Með von um hjálp.

Kveðja, Kríla-mamma sem var að byrja að vinna aftur :o(

.............................................................................................. 

Sæl og blessuð Kríla-mamma!

Já, þetta getur verið alveg eðlilegt. Það vantar reyndar hjá þér hve lengi þú varst með á brjósti. En þú ert byrjuð að vinna svo ég reikna með því að það séu nokkrir mánuðir. Þetta geta verið svona sein afvenjunarviðbrögð í brjóstvefnum og ættu að hjaðna af sjálfu sér. Það er rétt hjá þér að það er ekki sniðugt að hamast mikið á þessu. Þá geturðu sett framleiðslu í gang aftur og fengið enn frekari vanda í kjölfarið. Þú skalt frekar setja kaldan bakstur á þetta svona tvisvar sinnum á dag. Ef um afmarkaðan stóran hnút er að ræða ættirðu fljótlega að finna minnkun. Ef ekki geturðu látið kíkja á þetta ef þú vilt og fengið hjálp.

Með óskum um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. janúar 2006.