Stíflueymsli í brjóstum á meðgöngu

10.12.2011

Sælar ljósmæður!

Mig langar til að spyrjast fyrir um eymsli/stíflur í brjóstum á meðgöngu. Ég er núna á 26.viku og er í annað sinn á 2-3 vikum að finna staðbundin eymsli umfram það sem ég hef verið að finna alla meðgönguna. Þetta minnir mig óneitanlega mikið á tilfinninguna þegar ég fyrir rúmum 13 árum ól mitt annað barn og fékk stíflur í brjóstin í upphafi meðgöngu, mikinn hita og endaði á sýklalyfjum, Það sama henti er ég var með frumburð minn á brjósti tveim árum fyrr. En sum sé, núna er ég að fá þess háttar staðbundin eymsli  í sama brjóstið. Ég neita því ekki að ég óttast að "lenda" í því sama í væntanlegri brjóstagjöf, það er að fá stíflur. Ég reyni að vera dugleg að halda á mér hita og fara vel með mig. En spurningin er, hvað getur þetta hugsanlega verið? Getur það verið vegna fyrri sögu, að brjóstin séu að "laga" eitthvað sem aflaga hefur farið?  Það brjóst sem ég fæ verkina í er sjáanlega minna en hitt og mjólkaði minna á sínum tíma.

Með kveðju"Guðný".

 


Sæl og blessuð Guðný!

Það er eins og þú hefur upplifað mögulegt að fá brjóstabólgu á meðgöngu. Það er þó afar sjaldgæft. Það er líka eðlilegt að svæði í brjóstinu sem hefur „lent í einhverju“ sé líklegra til að gefa meiri verki. Einmitt vegna þeirrar viðgerðarvinnu sem líkaminn er að vinna og þú minnist á. Það er gott að þú ert á varðbergi við einkennum og farir vel með þig því þá er trúlegt að þú grípir snemma í taumana og ástandið nái því ekki að verða slæmt. Svo er alveg eins víst að það gerist ekkert. Þannig að haltu áfram þínu góða starfi og gangi þér vel.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. desember 2011