Spurt og svarað

28. september 2005

Stíflur í brjóstum

Góðan dag og takk fyrir góðan vef.

Málið er að ég átti litla prinsessu 18 sept. og allt hefur gengið eins og í sögu með hana nema að ég er að drepast í brjóstunum og er með frekar stór brjóst og hún nær aldrey að drekka nema bara úr öðru því ég er með svo mikla mjólk. En málið er hvernig finnur maður fyrir stíflum?  Ég fer 2svar sinnum í sturtu á dag til að reyna að losa aðeins og hún vill ekki drekka nema á svona 4 tíma fresti. Hún nær aldrei að taka annað brjóstið rétt en gleypir alveg á fullu. Hvernig veit ég hvernig lýsingin á stíflum er og hvernig ég get losað um hjá mér?

...................................

Sæl og blessuð.

Það er nú ekki við því að búast að jafnvægi sé komið á brjóstagjöfina eða mjólkurframleiðsluna svo stuttu eftir fæðingu. Það er geysilega mikið um að vera í brjóstunum á þessum tíma og auðvelt að fá þá tilfinningu að um allt of mikla framleiðslu sé að ræða. Staðreyndin er hins vegar sú að brjóst framleiða aðeins í stað þess sem er tekið þannig að ef ekkert er mjólkað aukalega úr brjóstunum þá framleiða þau bara akkúrat það sem barnið þarf og ekkert umfram það
Á fyrstu dögunum er hins vegar oft að leka úr brjóstum vegna þess að losunarviðbragðið fer af stað á hinum og þessum tímum. Það er ekki merki um of mikla mjólk heldur eðlilegt ójafnvægi á losunarviðbragði.
Þú talar um að barnið drekki bara annað brjóstið í hverri gjöf. Það er bara fínt. Það nægir því greinilega. Þú passar bara að láta hitt brjóstið algjörlega í friði fram að næstu gjöf. Þú segir að hún drekki á 4ra tíma fresti. það er líka allt í fínu. En ég veit ekki alveg hvað þú átt við með að þú farir í sturtu til að losa. Þú mátt ekki mjólka neitt umfram úr brjóstunum. Þá kallarðu fram umframframleiðslu sem barnið þarf ekki á að halda og veldur þér bara óþægindum.
Það er hins vegar ekki gott ef hún tekur annað brjóstið ekki rétt. Þú getur prófað mismunandi gjafastellingar. Ef það ekki dugar þá þarftu að finna einhvern sem getur hjálpað þér að láta hana taka það rétt.
Stíflur myndast ef barn nær ekki að halda góðu rennsli gegnum alla ganga brjóstsins. Einkenni stíflu eru: Aumt svæði þar sem gjarnan myndast þétting eða hnútur. Það getur komið roði út á húðina og oftast kemur hiti og flensueinkenni.
Fyrsta meðferð við stíflu er heitur bakstur á hnútinn fyrir gjöf, nudd yfir hnútnum í gjöf og kaldur bakstur á hnútinn eftir gjöf. Þá getur líka skipt máli að barn sé í heppilegri gjafastellingu miðað við staðsetningu hnútsins.
Vona að þessi ráð verði að gagni.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
28.09.2005.
 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.