Stífluð brjóst

26.10.2004

Hvernig lýsir það sér þegar brjóstin stíflast?  Ég á rúmlega 3ja mánaða barn og undanfarið hefur mér verið illt í öðru brjóstinu sérstaklega við og eftir gjafir, geirvartan verður stíf/hörð og mig svíður svolítið eftir gjöf. Hvað er til ráða?

.....................................................

Sæl og blessuð.
Þú biður um lýsingu á því þegar brjóst stíflast. Ég ætla að gera það. En í eins stuttu máli og ég get því að ég held að það sé alls ekki það sem hrjáir þig. Undanfari stíflu er yfirleitt að barnið sýgur ekki eins vel og venjulega úr öðru eða báðum brjóstum (af einhverjum ástæðum). Síðan myndast þroti í brjóstvefnum sem þrengir að mjólkurgöngunum utanfrá. Þetta veldur tregara rennsli gegnum svæðið sem getur hvatt meiri þrota. Þennan þrota finna konur sem þéttingu eða hnút inni í brjóstinu. Svæðið er gjarnan aumt og það geta komið roðablettir eða samfelldur roði á húðina yfir svæðinu. Fljótlega í kjölfarið fær konan hita 37.8°-38.8°. Þegar hitinn er að rjúka upp fær konan gjarnan kuldahroll. Svo fylgja hliðarverkanir hita svo sem höfuðverkur, beinverkir og slappleiki. Þetta eru byrjunareinkenni brjóstastíflu. Ég ætla ekki að fara út í alvarlegri einkenni því ég reikna með því að þú sért þegar búin að sjá að þetta er allt annað en þú ert að glíma við.
Algengast er að verkir eða óþægindi sem eru alveg bundin gjafatímunum séu í tengslum við geirvörturnar. Það getur verið rangt grip, rangt sog, sýkingar, húðsjúkdómar og margt fleira. Fyrr eða síðar gefur það gjarnan verki sem leiða inn í brjóstið. Þú skalt athuga að vörtuvandamál eru oft bara öðru megin. Þú nefnir líka sviða eftir gjöf sem er eitt einkenna sveppasýkingar. En athugaðu að sviði eftir gjöf getur líka tengst öðrum vandamálum á geirvörtum.
Það sem er til ráða er að leita aðstoðar. Þú þarft að finna fagaðila sem er vanur brjóstavandamálum og fá bæði viðtal og skoðun. Drífðu í því. Vandamál á geirvörtum lagast sjaldnast af sjálfu sér og þau geta versnað mjög hratt.

Með von um skjóta meðferð og bata,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. október 2004.