Stingir í brjósti

18.10.2009

Hæ!

Ég er með son minn 6 mánaða á brjósti. Það hefur gengið mjög vel og hef ég haft fullt af mjólk til að gefa honum. Mig langar að halda áfram með hann á brjósti. Hann er núna byrjaður að fá graut 1x á dag en er að drekka vel á milli. Núna síðustu daga hef ég verið að fá stingi og pínu verki í brjóstin og þá aðallega í kringum geirvörtuna og vörtubauginn. Er þetta nokkur merki um að mjólkin sé að minnka? Er þetta eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af? Þetta kemur og fer.

 


Sæl og blessuð!

Þetta er alveg örugglega ekki merki um að mjólkin sé að minnka. Það koma stundum svona einkenni með sveppasýkingu og hún getur jú komið hvenær sem er á brjóstagjafatímanum. Ég myndi því ráðleggja þér að láta athuga hvort svo gæti verið.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. október 2009.