Stingir í brjóstum

27.05.2006

Sælar og takk fyrir góðan vef!

Ég eignaðist stúlku fyrir 7 vikum og er með hana á brjósti. Brjóstagjöfin gengur mjög vel og hún þyngist vel. En ég hef verið að fá stingi í brjóstin. Þetta kemur alltaf eftir gjöf og í fyrstu varði þetta í smá tíma og kom í því brjósti sem hún drakk úr en nú varir þetta mun lengur og er frekar sár stingur. Þetta er reyndar ekki alveg stanslaust en annað slagið. Langaði bara að athuga hvort þið könnuðust við svona?


Sæl og blessuð.

Já, við könnumst við svona. Þessi lýsing á nokkuð vel við byrjandi sveppasýkingu á geirvörtum. Það er reyndar fleira sem kemur til greina en er frekar ólíklegt. Ég ráðlegg þér að leita til brjóstagjafaráðgjafa, ljósmóður, hjúkrunarfræðings eða læknis og fá skoðun og meðferð.

Gangi þér vel og góðan bata,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. maí 2006.