Stórt brjóstagjafavesen

02.07.2009

Sælar!

Ég er búin að reyna allt mitt besta til að vera með son minn á brjósti . Hann er 2.5 mánaða. Hann hefur fengið ábót frá byrjun en þó mismikla. Á tímabili fékk hann slæmt kvef og þurfti að fá að drekka úr pela því hann gat ekki sogið brjóstið. Hann vandist auðvitað þessu undratæki og vildi lítið sjá tútturnar á mömmu sinni eftir það. Nú erum við með hjálparbrjóst. Það gekk mjög vel í fyrstu en núna er hann aftur farin að garga á brjóstin eins og honum finnist brjóstamjólkin vond. Ég er farin að mjólka meira og reyni að mjólka mig öðru hvoru til þess að halda einhverri framleiðslu uppi. Ég er alveg að verða ráðþrota með þetta. Ég veit ekki hvernig ég get vanið hann á brjóstið aftur án þessa slöngudóts. Hann drekkur brjóstið vel á nóttinni og morgnana en síðan þegar hann er vel vakandi þá vill hann ekki sjá það. Ertu með einhver ráð?

 


Sæl og blessuð!

Það getur verið mjög erfitt að eiga við svona vandamál. En ef pelinn er kominn alveg út þá ætti það að verða viðráðanlegt. Ef þú ert að nota hjálparbrjóstið þá er tilvalið að reyna mismunandi víddir af slöngum. Þú getur líka reynt að staðsetja slönguna á breytilega staði við vörtuna. Svo þegar hann róast má lauma slöngunni í burtu ef þú heldur að hún trufli hann. Það er lykilatriði fyrir þig að ná upp mjólkurframleiðslunni þannig að það hjálpar þér örugglega að mjólka nokkrum sinnum á dag í nokkra daga til örvunar. Þegar þú ert svo að reyna beina brjóstagjöf yfir daginn þá getur hjálpað að mjólka fram svolitla mjólk og koma rennslinu af stað áður en hann er lagður á og jafnvel að vera búin að hálfsvæfa hann líka. Og þú getur verið viss um að honum finnst mjólkin þín ekki vond. Þvert á móti er hún miklu betri en mjólk annarra dýrategunda.

Vona að þetta gangi vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
2. júlí 2009.