Stuttar gjafir og saddur fyrirburi

10.12.2006

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Mig langaði að spyrjast fyrir um lengd gjafa. Ég á tveggja vikna strák, fæddan 5 vikum fyrir tímann. Hann var settur á brjóstið frá upphafi en fékk ábót á pela fyrstu vikuna. Hann tekur brjóstið vel en drekkur yfirleitt ekki lengur en 10 mínútur í senn og stundum örlítið styttra. Hann virðist samt saddur, afþakkar frekari veitingar og sofnar vært. Ég vek hann yfirleitt á þriggja tíma fresti því hann vaknar ekki sjálfur fyrr en eftir fjóra tíma. Hægðir og þvaglát eru í samræmi við allar bækur en ég hef áhyggjur af því að hann sé ekki að fá nóg þar sem hann drekkur svo stutt og yfirleitt ekki nema sjö til átta sinnum á sólarhring. Á ég að grípa til einhverra ráðstafana eða leyfa honum að ráða þessu?

Með fyrirfram þökk, Fyrirburamamma.


Sælar!

Börn sem eru dugleg að sjúga verða oft södd eftir 10 mínútur á brjósti. Ef hann þyngist vel og hægðir og þvag eru í lagi - þá er þetta allt eðlilegt. Það á að vera nóg að drekka 7 til 8 sinnum á sólarhring fyrir börn, það er til að börn drekki 6 sinnum á sólarhring og sjúga þá það vel að þau þyngjast vel og dafna vel. Ef hann þyngist vel er allt í lagi að leyfa honum
að ráða þessu.

Með bestu kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. desember 2006.