Spurt og svarað

16. júlí 2009

Stuttur matartími

Sælar og takk fyrir stuðninginn sem þið hafið veitt fjölda kvenna á meðgöngu og eftir fæðingu í gegnum þennan frábæra vef!

Mig langar að fá álit á mínu "vandamáli". Strákurinn minn er rúmlega þriggja mánaða og frábær í alla staði. Hann hefur þyngst og dafnað vel en síðustu tvær vikur hefur gjafatíminn styst verulega og er yfirleitt um fimm mínútur að deginum en fer stundum upp í ca. átta mínútur. Hann er þó yfirleitt um fimmtán mínútur á næturnar. Hann er eingöngu á brjóstamjólk. Hann sefur vel á næturna. Á daginn sefur hann yfirleitt stutta dúra, um 45 mínútur til klukkutíma. Mér finnst hann vera minna ánægður eftir að gjafirnar styttust svona.Ég margbýð honum að fá sér meira en hann tekur það ekki í mál. Hann er frekar vælinn eftir smá stund en vill samt ekki drekka meira. Fyrir tveimur dögum tók ég eftir að það var komin smá skán á tunguna á honum.Getur það haft einhver áhrif og er nóg að meðhöndla hana með því að þvo tunguna með sódavatni eins og mér var sagt? Spurning er hvort þessi hegðun hjá krílinu mínu sé eðlileg og eitthvað sem gengur yfir eða á ég að láta athuga málið nánar? Takk fyrir mig annars.

Kveðja Linda.

 


Sæl og blessuð Linda!

Þetta hljómar allt mjög eðlilegt. Gjafamynstur brjóstabarna breytist gjarnan fram og til baka. Stytting gjafa er mjög algeng þegar þau eru orðin tæknilega fær um að drekka hratt. Það fer svolítið eftir persónuleikum þeirra. Sum „afgreiða“ máltíðina hratt og vel. Þau verða að einstaklingum sem eru fljótir að borða. Svo eru það „dólararnir“ sem eru alltaf svolítið að dóta sér við þetta. Og svo eru það nautnaseggirnir sem njóta þess að vera að borða vel og lengi. Við könnumst öll við þessar „týpur“.

Varðandi skánina þá ætti að duga að hreinsa tunguna með sódavatni í nokkra daga. Ef þér finnst það ekki ganga skaltu láta skoða ykkur betur með tilliti til sveppasýkingar.

Bestu óskir.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. júlí 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.