Spurt og svarað

11. september 2011

Súkkulaðiæði eftir fæðingu

Góðan daginn!

Sennilega er þessi fyrirspurn með því heimskara sem þið hafið móttekið en ég læt hana nú samt flakka með von um svar. Eins og fyrirsögnin gefur til kynna er ég gersamlega óð í súkkulaði og þá sérstaklega í eina ákveðna tegund. Ég er farin að hafa af þessu áhyggjur þar sem ég hugsa um súkkulaðið stanslaust. Ég get án vandkvæða skellt í mig 200 gr. stykki og langað í meira. Ég gæti auðveldlega skipt út morgunverði fyrir súkkulaðistykkið (og öðrum máltíðum) en leyfi mér það ekki. Ég borða annars mjög hollt og passa mikið upp á hvað ég borða. Það sem er hið fáránlegasta við málið er það að ég er annars manneskja sem varla snerti sætindi en núna líður mér eins og fíkli. Barnið mitt vex eðlilega, ég mjólka nóg, er grönn og allt eftir bókinni. Ég hef áhyggjur af þessari fíkn og hvort hún kemur til með að vara hjá mér og hvort ég enda feit. Hafið þið séð eitthvað þessu líkt áður? Er eitthvað hægt að ráðleggja mér eða leiðbeina. Svo í lokin langar mig að vita hversu mikið maður brennir aukalega á dag við það að vera með barn á brjósti.

Með góðum kveðjum til ykkar.

 


Sæl og blessuð!

Já, við höfum heyrt um þetta áður. Það er mjög algengt að sykurfíkn geri vart við sig eftir fæðingu og í brjóstagjöf. Þetta er fyrst og fremst leið líkamans til að láta vita að hann þurfi orkuefni til brennslu. Súkkulaði og sælgæti yfirhöfuð er sykur á fljóteknu og fljótnýtanlegu formi og liggur því beint við. Það er mikilvægt að útvega líkamanum flóknari næringarefni sem nýtast lengur og betur. Rótarávextir og kál er upplagt og eins brauðmeti. Þú gætir líka þurft á meiri fitu að halda. Þetta eru tímabundnar breytingar og þú getur verið nokkuð viss um að fíknin hverfur eftir að brjóstagjöf lýkur. Það þarf þó að vinna að því sem mér heyrist þú vera að gera. Það er þó allt í lagi að láta undan sykurfíkninni annað slagið á meðan verið er að breyta því sem hægt er. Aukabrennslan í brjóstagjöf er nokkuð misjöfn milli kvenna og eftir því hvenær í brjóstagjöfinni það er en hún hleypur á nokkrum hundrum kaloría á dag.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. september 2011

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.