Svæfing og brjóstagjöf

31.12.2005

Sælar!

Ég þarf að leggjast undir hnífinn í febrúar og verð svæfð meðan á aðgerðinni stendur. Ég er að velta fyrir mér hvort ég þarf að mjólka mig og henda mjólkinni á eftir eða hvort ég má gefa dóttur minni strax þegar ég kem heim en hún verður orðin 7 mánaða þá.

Með kveðju, Anna.

................................................................................

Sæl og blessuð Anna.

Það skiptir reyndar smá máli um hvernig aðgerð er að ræða og lyfjagjafir fyrir og eftir aðgerð.
Ef ég gef mér að um litla eða meðalaðgerð sé að ræða og að venjuleg svæfingarlyf verði gefin með venjulegum verkjalyfjum á eftir og hugsanlega fyrirbyggjandi sýklalyfjum þá geturðu verið alveg róleg. Þá ætti þessi viðburður ekki að trufla brjóstagjöfina á nokkurn hátt. Þú getur lagt á brjóstið rétt áður en þú ferð inn á skurðstofu ef þú vilt. Svo getur þú um leið og þú ert vöknuð og áttuð eftir aðgerðina gefið brjóst ef vilji er fyrir því. Svæfingarlyfin fóru að vísu í mjólkina en þau eru farin út úr henni aftur. Það er algerlega ónauðsynlegt að mjólka sig eftir allflestar aðgerðir og það er að sjálfsögðu hreinn glæpur að henda mjólkinni.

Með bestu óskum um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. desember 2005.