Svefn 6 vikna barns

19.10.2008

Sælar!

Ég er með eina tæplega sex vikna skvísu sem er eingöngu á brjósti. Eftir að hafa hætt með hana á 3ja tíma gjöfum vegna gulu létum við hana alveg ráða því sjálfa hvenær hún vildi fá að drekka. Hún drekkur á svona fjögurra til fimm tíma fresti yfir daginn og svo mun örar á kvöldin og er stundum nánast stanslaust á brjósti frá svona átta á kvöldin til tólf eða eitt á nóttunni. Svo hefur hún vaknað milli fimm og sex að morgni og svo aftur um tíu eða ellefu og svo byrjar hringrásin aftur. Okkur hefur líkað þetta vel. Hún er dugleg að drekka og þyngist vel. Í nótt svaf hún í fyrsta sinn í heila nótt og mér krossbrá þegar ég vaknaði við hana klukkan hálf níu! Hún hafði þá drukkið til svona tólf, sofnaði rétt fyrir eitt og svo drakk hún sem sagt fyrst klukkan hálf níu í morgun! Hún er voðalega pen þegar hún biður um að drekka, grætur yfirleitt ekki heldur meira svona minnir á sig og ég er bara farin að hafa áhyggjur af því að hafa "misst af henni" í nótt. Eru dæmi um að sex vikna börn sofi í átta tíma yfir nótt eða á ég að reyna að breyta þessu?

Takk takk. Edda


 

Sæl og blessuð Edda.

Þetta hljómar allt mjög heilbrigt og eðlilegt. Það er mjög misjafnt hvenær börn fara að sofa heila nótt. Að maður tali nú ekki um þau sem gera það aldrei. En þú þarft ekki endilega að búast við að hún geri þetta nú á hverri nóttu. Stundum er þetta svona nótt og nótt á stangli til að byrja með en svo fjölgar þeim smám saman. Láttu hana bara hafa þetta eins og hún vill eins og gjafirnar.

Bestu kveðjur.

Katrín Edda Magnúsdóttir,

ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,

19. október 2008.