Spurt og svarað

16. desember 2008

Svefn og svengd 4ra mánaða

Ég á rúmlega 4ra mánaða strák sem hefur dafnað og þyngst mjög vel. Hann hefur  verið eingöngu á brjósti og mér hefur  fundist ég hafa nóg handa honum, þangað til núna. Í u.þ.b. 2-3 vikur höfum við átt í smá erfiðleikum með hann á kvöldin þar sem hann sofnar, en hrekkur svo upp aftur eftir ca 30-60 mínútur og grætur þá sárt. Ég hélt að kannski vildi hann láta halda á sér en það tekur  aðrar 30-60 mínútur að ná honum aftur niður. Ég fór með hann í ungbarnaverndina og þar voru eyrun skoðuð en reyndust í fínu lagi. Einnig er hann að þyngjast um 110 gr. á viku. Hjúkkan þar vildi samt meina að ástæðan væri kannski svengd og hann vildi meira að drekka. Ég hef því verið að gera það núna upp á síðkastið, en enn lætur hann illa. Margir hafa verið að segja við mig að ég eigi að gefa honum ábót, t.d. þurrmjólk eða graut, en ég hef enn ekki verið tilbúin að gefa mig alveg. Getur verið að hann verði að fara að fá graut til að fá meiri „fyllingu“ í magann? Þegar hann loksins sofnar, þá sofnar hann vært og drekkur tvisvar á tímabilinu frá 23 - 7, en á daginn er hann yfirleitt að drekka á 2-3 tíma fresti. Þá sefur hann yfirleitt tvo til þrjá ágætislúra. Mig langaði bara að fá smá álit á þessu. Mig langar að halda honum eingöngu á brjósti út 6 mánuðina, en ég vil heldur ekki að barnið mitt sé svangt.

Kveðja og þökk fyrir góðan vef, Þorgerður.


Sæl og blessuð Þorgerður!

Þetta hljómar eins og breyting á gjafamynstri. Nánast öll brjóstabörn ganga í gegnum slíkar sveiflur. Í raun er barnið ekkert svengra, heldur er það svangt á öðrum tímum en áður. Þyngdaraukningin sýnir ljóslega að barnið er að fá meira en nóga næringu. Það er í rauninni ekkert sem knýr á um að hann sé þvingaður inn í annað kerfi en þetta en ef þú vilt leggja vinnu í það þá geturðu breytt mynstrinu svo það henti þér betur á nokkrum dögum. En þú mátt alveg eins eiga von á að hann umbylti því öllu aftur eftir nokkra daga. Svo það er alltaf spurning hvort svona vinna borgi sig. Að sjálfsögðu er langur vegur frá því að barnið þurfi eitthvð annað en brjóstamjólk og það heitir ekki að gefa sig með neitt að  fara að gefa barni eitthvað sem melting þess er ekki tilbúin fyrir og myndi gefa honum verki í maga.

Ég ráðlegg þér að halda áfram á sömu braut og bjóða honum brjóstið aukalega á kvöldin ef þú telur að það sé það sem hann er að biðja um.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. desember 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.