Svefnvandamál

02.03.2010

Sælar!

 Ég er með rúmlega 5 mánaða strák sem er stór og sterkur. En svefninn á nóttinni er í algjöru rugli hjá okkur. Hann vaknar yfirleitt á sirka 2 tíma fresti og leitar að brjóstinu. Þegar ég fór með hann í 5 mánaða skoðun var mér sagt að minnka gjafirnar á nóttinni þar sem hann þurfi ekki á þeim að halda. Ég er ekki viss hvort að hann sé svona svangur því að mér finnst stundum eins og hann bara ráðist á mig og drekki eða hvort þetta sé orðinn vani hjá honum! Eftir 4 mánaða skoðunina fór ég að gefa honum hreinan hrísmjölsgraut á kvöldin en það hefur ekki breytt neinu. Hann vaknar alveg jafn oft. Hann leggur sig 2 - 3 yfir daginn og er oftast vakandi í svona sirka 3-4 tíma áður en hann fer að sofa. Ég eiginlega veit ekki alveg hvað ég á að gera. Á ég að leyfa honum að drekka svona á nóttinni eða þarf ég að taka á þessu? Það er voða þægilegt að leyfa honum bara að drekka þegar hann vaknar, þá sofnar hann strax aftur og ég fæ aðeins betri svefn. Er þetta eitthvað sem eldist bara af honum?

Kv. ein ráðalaus.


 

Sæl og blessuð „ein ráðalaus“!

Það er yfirleitt merki um að börn fái ekki nóg að drekka á daginn ef þau eru mjög kröfuhörð á brjóstin á næturnar. Þannig að ég myndi ráðleggja þér að fjölga daggjöfunum og þá sérstaklega rétt fyrir svefninn og sjá hvort ekki breytist eitthvað við það. Þér er alveg óhætt að trúa því að hann gerir þetta ekki að gamni sínu og myndi sjálfsagt vilja sofa alla nóttina ef maginn léti hann í friði. Svo þegar hann verður 6 mánaða geturðu gefið honum næringarríka máltíð rétt fyrir svefninn.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
2. mars 2010.