Spurt og svarað

22. júlí 2012

Svefnvenjur brjóstabarna

Sælar ljósmæður og takk fyrir frábæran þráð
Ég á 4 mánaða strák sem ég er með á brjósti og ég gef honum graut á morgnana og áður en hann fer að sofa. Ég vildi athuga hvort það væri hægt að gefa mér einhver ráð með svefninn hans. Hann er vanur að sofa alla nóttina, sem sagt alltaf í kringum miðnætti til 6-7 á morgnana. Hann sefur mjög lítið á daginn, tekur bara stutta lúra í einu sérstaklega eftir að hann er búinn að drekka en það fer mjög sjaldan yfir hálftíma í senn. Mamma mín hefur spurt mig hvort það sé eðlilegt að hann sofi svona lítið í einu yfir daginn og ég hef ekki getað svarað því, því ég sjálf svaf á þessum aldri tvisvar sinnum á dag og þá voru það 2-3 tímar í senn. En svo er ég stundum mjög þreytt eftir daginn og langar að fara að sofa í kringum 10 eða 11 en þá er hann alveg glaðvakandi og enginn séns á að fá hann til að sofna. Ég hef prófað að gefa honum grautinn og að drekka fyrr á kvöldin, kannski kl hálf 9 eða 9 og reynt að svæfa hann en það virkar ekki. Það er bara eins og það slokkni ekki á honum fyrr en í kringum miðnætti. Ef ég legg hann og reyni að svæfa hann eitthvað fyrr á kvöldin grætur hann bara og ég hef reynt eins lengi og ég get að láta hann gefast upp en hann grætur bara og sprikklar af sér sænginni þangað til klukkan verður orðin þetta margt. Hann virðist ekki vera svangur eða líða illa, hann er bara alltaf glaðvakandi og mjög erfitt að svæfa hann þegar hann er alls ekkert þreyttur. Svo sofnar hann eiginlega alltaf bara á brjóstinu þegar ég legg hann fyrir nóttina því það er eiginlega eina leiðin til að fá hann til að sofna en ég vil ekki að brjóstið verði eins og svæfingartæki og hann verði of háður því. Svo mín spurning er, hvernig er hægt að fá hann til að sofa meira yfir daginn í senn og fá hann til að sofna fyrr á kvöldin? Fara börn að sofa meira í einu þegar þau eldast og er algengara að þau sofni fyrr á kvöldin þá?Sæl

Til hamingju með drenginn þinn! Svefnmynstur brjóstabarna er mjög mismunandi eftir aldri barnanna og persónuleika þeirra. Ef barnið sefur á nóttunni og virðist líða vel yfir daginn höfum við venjulega ekki áhyggjur af lengd daglúra. Þannig að þú ættir ekki að þurfa að hafa áhyggjur af honum.

Á heimasíðunni brjostagjof.is eru áhugaverðar upplýsingar um svefn og svefnvenjur brjóstabarna og bendi ég þér á að skoða þær.

Gangi þér vel.

kær kveðja,
Signý Dóra Harðardóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. júlí 2012
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.