Spurt og svarað

17. janúar 2006

Sveltandi barn

Sælar!

Ég á 18 daga gamla stúlku sem var tekin með bráðakeisara og vorum við í 4 daga á sængurkvennadeildinni í góðu atlæti. Hún var erfið á brjóstinu og ég fékk mikla hjálp frá ljósmæðrunum á deildinni. Þar komumst við að því að hún tæki brjóstið rétt, bæði saug og kyngdi í gjöfum. Vandamálið var hve reið hún var alltaf og grét mikið í upphafi gjafa. Gjafirnar tóku einnig langan tíma og hún vildi alltaf vera á brjóstinu.  Ég fékk líka þau ráð að setja hana alltaf á brjóstið, sama hve stutt væri síðan hún hefði verið síðast.  Við vorum alltaf vissar um að gráturinn og reiðin myndi hverfa þegar mjólkin kæmi. Við fórum heim á miðvikudegi og sama dag kom mjólkin, mér til mikillar gleði.  Samt hélt gráturinn og vandræðin áfram.  Hún var 3.725 gr. við fæðingu, þegar við fórum heim var hún 3.230.  Það kom ekki hjúkrunarfræðingur heim til okkar fyrr en fimm dögum eftir að við komum heim og þá var stúlkan mín bara 3.020 gr.  Þetta var mikið áfall fyrir mig og ég held hreinlega að mér hafi aldrei liðið jafn illa. Hún bara var að svelta hjá mér, samt var ég alltaf með hana á brjóstinu. Við þurftum að fara niður á bráðamóttöku og þar var hún skoðuð í krók og koma.  Mjólkurmyndunin hjá mér var metin og svo fengum við að fara heim og mér sagt að mjólka mig aukalega og gefa henni á pela, og gefa henni þurrmjólk líka ef brjóstamjólkin dygði ekki.  Ég hef ágætlega mikla brjóstamjólk og hún hefur aukist þessa daga síðan þetta var en ég hef einnig alltaf þurft að gefa henni eitthvað af þurrmjólk á hverjum degi.  Hún fer fyrst á brjóstin og fær svo ábót í pela.  Ég keypti líka hjálparbrjóst og hef notað það aðallega á nóttunni með ágætum árangri. Þannig hefur hún náð að þyngjast í 3.850 gr núna.  En það eru enn vandræði með hana á brjóstinu, ég bara leyfi henni ekki að hanga á þeim í tvo tíma eins og áður. Núna er hún farin að taka brjóstið betur svona einu sinni til tvisvar sinnum á dag, þá gengur allt upp og ég finn að hún er að drekka almennilega. 

Mig langaði að spyrja ykkur hvaða ráð ég get notað til að koma henni alveg yfir á brjóstin. Hvaða skref ætti ég að taka.  Nú er hún að verða sterkari og hlutirnir líta betur út en hún er enn stundum mjög erfið fyrst á brjóstinu, hún bara er með opinn munninn og sýgur ekki neitt, vill bara að ég helli í sig. Hún hristir höfuðið til hliðanna, lætur mjólkina sem lekur úr mér leka niður um munninn og svo öskrar hún og grætur.  Ég veit að enn er hún bara 18 daga gömul og vona að þetta eigi allt eftir að lagast svo hún geti drukkið mjólkina mína.  Ég er með frekar mjúkar geirvörtur, þær eru ekki alveg sléttar en mótast mjög auðveldlega.  Ég meiði mig ekkert í vörtunum en er fljót að fá stálma ef ég tæmi þau ekki mjög reglulega. Hún drekkur á þriggja tíma fresti og er að fá aukalega í pela hjá mér alveg frá 40 ml upp í 100.  Stundum er hún botnlaus að mínu mati.

Vona að þið eigið góð ráð handa mér.

Kveðja, Lilla.

...................................................................................................

Sæl og blessuð Lilla.

Þú ert aldeilis búin að þurfa að hafa fyrir hlutunum. Það er alltaf erfitt að finna orsökina fyrir svona vandamálum og oft á tíðum er hún samspil margra þátta. Það hefur heldur ekki þýðingu fyrir þig á þessu stigi málsins að vera að velta sér upp úr því heldur betra að einbeita sér að því sem hægt er að bæta. Svona vandamál vilja oft lagast hægt og rólega með auknum þroska barnsins. Mér virðist sem þú sért búin að finna það út. Í millitíðinni leggurðu aðaláhersluna á mjólkurframleiðsluna. Ef þér gengur vel að mjólka eða pumpa brjóstin á móti brjóstagjöfunum ættirðu að geta náð nægri framleiðslu og sleppt þurrmjólkinni. Þá ertu búin að tryggja að gráturinn sé ekki meltingaróþægindi af völdum þurrmjólkurinnar heldur er hún svöng ef hún grætur og þarf brjóstamjólk. Það er líka gott hjá þér að nota hjálparbrjóstið og passa að hún fái hvorki snuð né túttu í munninn (hún á nógu erfitt með að læra þetta samt). Svo þarftu alltaf að passa að hún sé í góðri gjafastellingu (öfugri kjöltustöðu eða hestbaki) og fái mjög góðan stuðning við kroppinn og höfuðið í gjöfinni. Mér finnst dularfullt ef hún getur „hrist höfuðið til hliðanna“ en það geta börn í góðri gjafastöðu ekki (en kannski er orðalagið ekki rétt).
Það er líka gott að þú reynir að stytta gjafirnar. Það er betra að gefa fleiri stuttar gjafir en fáar lengri og þau eru líklegri til að komast fyrr upp á lagið. Það gæti líka hjálpað þér þegar hún er farin að sjúga að nota brjóstakreistun. Það er líka spurning hvort þú þurfir ekki bráðum að fá aftur mat á gjöfinni þ.e.a.s. horft sé á þig gefa til að athuga hvort allt sé rétt og meta hve mikilli mjólk hún nær á hve löngum tíma o.s.frv.

Með bestu óskum um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafim
17. janúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.