Spurt og svarað

31. maí 2005

Sveltir sig fyrir brjóstið

Kæra Katrín, ég vona að þú getir hjálpað mér!

Þannig er mál með vexti að ég á 9 mánaða hrausta og duglega stelpu sem alveg hætt að vilja borða en drekkur vel á brjósti. Þetta byrjaði fyrir u.þ.b. mánuði þegar hún fékk í eyrun (er annars mjög hraust). Þá minnkaði matarlystin en hún hefur aldrei komið aftur. Ég hélt fyrst að þetta væru sýklalyfin sem væru að gera hana lystarlausa og svo kannski tanntaka en nú er ekkert í gangi, engar tennur sjáanlega á leiðinni og hún er alveg frísk en vill ekkert borða. Ég get gabbað ofan í hana mat, með því að syngja o.þ.h. en það er ekki aðferð sem ég vil nota og auðvitað ekki góðar matarvenjur.

Ég hef prófað að láta hana ráða, bara gefið henni það sem hún vill kannski 1-5 tsk og hún hefur ekkert fengið þar til á næsta matartíma en hún virðist ekkert vera svöng. Hún snýr sér bara undan.

Ég hef reynt að halda mig við að gefa henni brjóstið einungis kvölds og morgna og hún drekkur þá mjög vel og sundum á nóttunni líka en ég vil alls ekki svelta barnið og er því núna farin að gefa henni yfir daginn, u.þ.b. 1 klukkustund eftir mat.

Ömmurnar báðar segja að hún sé að svelta sig fyrir brjóstið og eina leiðin til að þetta lagist sé að hætta með hana á brjósti. Er eitthvað til í þessu? Ég vil ekki trúa þessu. Mig langar að vera lengur með hana á brjósti en þetta gengur ekki lengi svona. Ég vona að þú hafir einhver ráð handa mér.

Takk fyrir og bestu kveðjur,
áhyggjufull mamma.

........................................................................

Blessuð og sæl áhyggjufulla mamma.

Þetta er alltaf svolítið óþægileg tilfinning þegar maður hefur það á tilfinninguna að maður sé að þvinga börn til að gera eitthvað sem þeim er þvert um geð. Það er akkúrat það sem er í gangi. Þ.e.a.s. henni er náttúrlega ekki þvert um geð að borða en hún vill gera það á sínum forsendum. Sennilega þarftu að bakka aðeins í þróuninni. Þetta tímabil þegar hún var farin að borða virðist vekja hjá henni slæmar minningar. Hvort þú fórst of geyst í þetta, hvort hún tengir þetta vanlíðan veikindanna eða einhverri óþægilegri upplifun er ekki gott að segja. En hún tengir brjóstagjöfina öllu hinu góða - vellíðan á líkama og sál, eitthvað sem hún þekkir og er öruggt og því tekur hún hana fram yfir þetta nýja sem reyndist henni ekki vel. Ég myndi ráðleggja þér að byrja upp á nýtt. Byrja á bragðlitlum grautum eða bananastöppu, 2-3 teskeiðar á dag í örfáa daga og svo auka um teskeið á dag. Þegar sættir virðast hafa myndast má kynna aðrar fæðutegundir. Ekki troða í hana einhverju sem hún mótmælir eða vill ekki. En hún verður samt trúlega fljótari að taka við nýjungum núna í annað sinn bara þegar hún er komin af stað.

Ömmurnar hafa að hluta til rétt fyrir sér. Hún hafnar því sem hún tengir einhverju slæmu og tekur vel á móti því sem hún treystir (brjóstinu). En að láta sér detta í hug að svipta hana því eina í heiminum sem hún treystir og er líflínan finnst mér hreint ótrúlegt. Þær hljóta að hafa misskilið eitthvað. Það er allt sem bendir til að þú hafir hana lengur á brjósti og ég vona bara að sá tími verði ykkur báðum ánægjulegur.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.