Spurt og svarað

19. október 2007

Sveltir sig fyrir brjóstið?

Sælar og takk fyrir þennan góða vef.

Ég er með eina rúmlega 9 mánaða dömu sem hefur tekið upp á því að borða lítið sem ekki neitt. Hún byrjaði að borða um 6 mánaða aldurinn og gekk það vel með brjóstagjöfinni. Hún veiktist núna í ágúst og var veik í um viku og stuttu eftir byrjaði hún í aðlögun hjá dagmömmum.  Aðlögunin hefur gengið frekar hægt og nú neitar hún að borða vott né þurrt. Hún er sem sagt enn á brjósti, hefur fengið á morgnana, svo þegar hún kemur frá dagmömmunum og fyrir svefn. Svo drekkur hún um miðnætti og svo í kringum
hálffjögur. Svoleiðis hefur það verið lengi en síðustu nætur er hún farin að vakna aftur um fimmleytið og verður þá mjög reið og grætur þegar henni er neitað um brjóstið. Það tekur á því ég veit að hún er væntanlega svöng en ég læt hana ekki komast upp með það og hún sofnar á endanum. Ég er bara hrædd um að hún fái ekki í sig næg næringarefni og því stefnum við hjónin á að reyna að breyta gangi mála frá og með næstu helgi. Vil taka það fram að hún sofnar sjálf í rúmi sínu um áttaleytið og sefur svo sem vel.

Spurningin er því, ætti maður eingöngu að venja hana af þessari næturgjöf þarna um kl. hálffjögur eða hreinlega að hætta alveg. Mér finnst það ansi hart, í ljósi allra breytinga, og myndi vilja getað gefið henni kannski á morgnana og kvöldin en kannski eru það bara óskýr skilaboð fyrir hana? Ég hef fengið svo misjöfn og óskýr svör alls staðar og finnst ég pínu ráðalaus.

Bestu kveðjur, Eva.


Sæl og blessuð Eva.

Ef að ég skil þig rétt var barnið byrjað á föstu fæði og einhverju að drekka en snarhætti svo að vilja það. Þá er bara að byrja upp á nýtt. Byrja hægt t.d. með 1 teskeið. Það væri ágætt að nota ekki alveg sama tíma og áður eða aðrar aðstæður til þess að ferlið fari aftur hægt af stað. Sennilega er barnið að vakna aukalega á nóttunni til að ná sér í þá næringu sem það nú fer á mis við. Þú skalt ekki hafa áhyggjur þótt barnið vilji ekki borða á meðan það er í pössun. Það er alþekkt fyrirbæri að þau geta beðið lengi eftir mömmu og brjóstinu. Mér finnst það ekki koma til greina þegar svo margar breytingar hafa dunið á barninu að svipta það að auki mörgum brjóstagjöfum en þetta er nokkuð sem þú ert í betri aðstöðu til að meta. Þér er alveg óhætt að fara eftir eigin sannfæringu og eigin tilfinningu.

Bestu óskir,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. október 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.