Spurt og svarað

17. desember 2006

Sveppasýking í brjóstum en barnið vill bara brjóstamjólk

Hæ, hæ!

Litla stelpan mín er núna orðin 9 mánaða og vill enn brjóst. Við erum reyndar í smá vandræðum með sveppasýkingu aftur, en við vorum með sýkingu frá 10-18 vikna :( sem loksins fór með breyttu mataræði. Hætti að borða allan sykur eftir að hafa reynt mycostatin, glycerol og sódavatna án árangurs. Og núna er sveppasýkingin komin aftur :( ég er reyndar með litlar og flatar vörtu svo það bætir nú ekki ástandið! Dóttirin er reyndar mjög dugleg að borða mat á daginn og fær bara brjóst í hádeginu, kvöldin og tvisvar sinnum yfir nóttina! Núna eftir að sveppurinn kom upp aftur hef ég bara ætlað mér að hætta þessu brjóstastússi hægt og rólega, enda er hún að byrja hjá dagmömmu en daman er ekki að „gúddera“ það. Hún neitar að drekka annan vökva, hún vill ekki vatn, mjólk, djús, stoðmjólk eða SMA, hvort sem þetta er borið fram heitt eða kalt eða í stútkönnu, pela eða glasi! Fontanellan á kollinum er orðin sokkin og ég veit ekki hvað ég á að gera. Er að reyna að gefa henni mjólk í skeið en hún bara snýr uppá sig þvílíkt móðguð og lætur það leka út. Eftir 3 daga af „vökvaskorti“ gat ég ekki meir og gaf henni brjóst. Hvað á ég að gera? Á ég að halda nokkrum gjöfum inni t.d morgun og kvöld þar til daman verður tilbúin eða bara að hætta þessu alveg? Hún hlýtur að drekka á endanum? Ég bara höndla ekki að gefa henni brjóst lengur útaf þessum sársauka. Ég lét mig hafa það í 8 vikur þegar hún var lítil en get það ekki aftur því þetta er svo hrikalega vont.

Kveðja, mömmulína.


Sæl og blessuð mömmulína.

Svona gömul börn líða nú yfirleitt ekki þann vökvaskort sem maður stundum heldur. Fyrir það fyrsta fá þau mikinn vökva úr matnum sínum sem oft á tíðum er hálf fljótandi. Svo hafa þau önnur ráð t.d. drekka þau af baðvatni, tannburstunarvatni o.fl. Þú getur svo haldið áfram að reyna að kynna hana fyrir vökvum. Finndu önnur ráð t.d. stinga putta í ávaxtasafa og láta drjúpa í munninn eða eitthvað.  Ég myndi samt ráðleggja þér að halda inni 2 gjöfum því það hljómar ekki eins og barnið sé tilbúið til að hætta brjóstagjöf. Þetta er líka oft erfiður tími til að hætta á. En ég myndi jafnframt ráðleggja þér að fá meðferð við sveppasýkingunni. Það ætti að ganga mun betur fyrir sig þegar þú ert í svona fáum gjöfum. Ef þér er illa við það geturðu prófað að kaupa þér Grape seed extract. Þú setur 10 dropa í vatnsglas og drekkur. Drekktu 4-5 glös á dag.

Vona að þetta gangi. 

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. desember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.