Svínaflensan og ungbörn

09.08.2009

Ég á 2ja vikna gamalt barn og er að velta því fyrir mér hvernig best megi verja það fyrir svínaflensunni og hversu hættuleg hún geti verið. Maðurinn minn hefur sérstaklega áhyggjur af þessu því líkur eru á því að fjölskyldan hans hafi smitast(heimsóttu smitaðan einstakling) og nú þora hvorki þau né hann að láta þau koma nálægt barninu. Við getum auðvitað takmarkað heimsóknir til okkar en þurfum sjálf að fara út úr húsi, versla í matinn og annað slíkt. Maðurinn minn óttast að við gætum borið smit heim en það er ekki hægt að loka sig inni þó maður sé með ungabarn. Nú er barnið svo lítið að ónæmiskerfið er ekki fullþroskað og miðað við hvað RS vírusinn getur verið hættulegur (og læknar kunna á hann), hversu hættuleg getur þá þessi svínaflensa verið ungabörnum? Hvað getur fólk með lítil börn eins og við gert?

 


Sæl og blessuð!

Ég vona að þú hafir lesið greinina um svínaflensuna og brjóstagjöf sem birtist fyrir nokkrum dögum. Það er rétt hjá þér að það er ekki hægt að loka sig inni endalaust. En ef þið farið eftir ráðum greinarinnar þá geti þið að sjálfsögðu farið út í búð og annað. En það er ekki sniðugt að fara á mjög fjölmenna staði. Það er ekki komin reynsla á það hér á landi hversu skæð flensan getur verið en hingað til hefur fólk veikst vægt og verið tiltölulega fljótt að ná sér. Svo verður fólk að fylgjast með fréttum um framvindu.

Gangi ykkur vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. ágúst 2009.