Dofi efst á bumbunni

31.01.2012

Sælar og takk fyrir mjög góðan vef.

Mig langaði að forvitnast um eitt atriði sem ég hef ekki fundið mikið fjallað um en veldur mér orðið verulegum óþægindum. Ég hef fengið tímabundin náladofa efst í bumbuna eiginlega frá ca 20 viku en er komin 36 vikur núna. Eftir því sem barnið og bumban hefur stækkað þá hefur þessi dofi aukist en ég gat yfirleitt haldið honum niðri með því að rétta úr bakinu. Núna undanfarnar vikur hefur dofinn hins vegar aukist mikið, bæði breytt úr sér og er nánast stöðugur núna og einnig klæjar mig frekar í þetta svæði. Svæðið sem þetta kemur fram á er undir báðum brjóstum þversum og ca. 5-10cm breitt svæði. Er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af?

Ein dofin


Sæl.

Ég held að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur af þessu þó þetta sé vissulega óþægilegt.  Sennilega tengist þetta að einhverju leiti stöðu barnsins en bjúgur og þrýstingur á taugar á þessu svæði eru líka mögulegar orsakir.  Ertu nokkuð í of þröngum brjóstahaldara eða brjóstahaldara með spöngum?  Nudd og krem geta kannski eitthvað hjálpað.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
31.janúar 2012.