Sviði í brjósti

31.08.2005

Heil og sæl!

Ég sendi fyrirspurn til ykkar fyrir u.þ.b. 3 vikum, um sviða í brjósti og fékk það svar að best væri að tala við brjóstaráðgjafa og gerði ég það. Brjóstaráðgjafinn fann ekkert út úr þessu og sagði að brjóstið væri mjög heilbrigt að sjá og ekkert sem benti til þess að um sveppasýkingu væri að ræða og datt ekkert annað í hug.  En málið er bara að ég hef ekkert lagast.  Ég er með svo mikinn sviða innan í öðru brjóstinu og þá sérstaklega þegar hún er að sjúga og mjólkin farin að minnka.  Getur verið að um sveppasýkingu sé að ræða nema bara inn í brjóstinu, sviðin er reyndar bara undir brjóstinu en ekki alls staðar og ekkert er heldur að sjá í munni barnsins.  Þetta er ekki mín fyrsta brjóstagjöf þannig að ég veit að þetta á ekki að vera svona enda er hitt brjóstið í góðu lagi.  Er búin að vera svona í allaveganna mánuð og mig hryllir við tilhugsunina að eiga eftir að vera með barnið á brjósti í einhverja mánuði í viðbót með annað brjóstið svona, (barnið er tveggja mánaða).  Ég hef stefnt á það að vera með barnið eins lengi á brjósti og ég mögulega get.

Með von um einhverja hjálp, brjóstakonan.

.......................................................................................

Sæl og blessuð brjóstakona.

Það er alveg rétt hjá þér að brjóstagjöf á aldrei að fara fram með kvölum. Stundum getur reyndar tekið tíma að finna út hvað er að og fyrir meðferð að fara að virka. En maður á aldrei að sitja með hendur í skauti og þjást. Þú ert heldur ekki að sitja og þjást. Þú veist að þetta á ekki að vera svona og þú ert að leita þér aðstoðar. Lýsingin getur vel átt við sveppasýkingu. Sveppir geta valdið einkennum innan í mjólkurgöngunum án þess að nokkuð sjáist utan á vörtunum eða í munni barnsins. Lýsingin getur svo sem líka átt við ýmislegt annað. Fagmaður sem er eitthvað inn í brjóstagjafavandamálum ætti að geta fundið út úr því á nokkrum dögum en það getur stundum verið erfitt að greina sveppasýkingu. Ég ráðlegg: Ekki sitja og þjást. Finndu einhvern sem getur skoðað, greint og hjálpað.

Með styrkjandi kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. ágúst 2005.