Spurt og svarað

07. ágúst 2005

Sviði í geirvörtum

Sæl
Ég er með 7 vikna gamla stelpu og er hún núna undanfarna tvo daga búin að vera afskaplega dugleg að drekka en það sem mér finnst svo einkennilegt að mér finnst ekki gott þegar ég legg hana á brjóst.  Ég finn fyrir miklum sviða í geirvörtunum og sérstaklega þegar hún er að klára, er að velta fyrir mér hvað þetta geti verið.  Svo
er annað hún drekkur stundum á 1 1/2 - 2 tíma fresti en svo kemur fyrir að það líða 3 - 4 tímar en mér finnst eins og mjólkin klárist svo fljótt úr því brjósti sem hún er að drekka, ætli hún þurfi bæði brjóstin í hverri gjöf úr því að það líður svona stutt á milli eða er hægt að auka magnið í hvoru brjósti fyrir sig?
Kær kveðja
Svava

...............................................


Sæl og blessuð Svava.
Varðandi fyrri spurninguna þá er líklegt að um sveppasýkingu sé að ræða. Það er þó fleira sem kemur til álita svo endilega drífðu í að fá skoðun sem fyrst hjá brjóstagjafaráðgjafa, lækni eða ljósmóður. Ef um sveppi er að ræða er best að fá meðferð sem fyrst því einkennin gera ekkert annað en versna ef beðið er.
Varðandi seinni spurninguna þá er það þannig að brjóstabörn taka gjarnan misstórar gjafir (alveg eins og við borðum misstórar máltíðir). Stundum vilja þau litla gjöf og þá þýðir það að styttra er að næstu gjöf. Þú græðir í raun ekkert á að reyna að hafa meiri mjólk í brjóstinu á þeim tíma. Barnið myndi taka sömu litlu gjöfina sem það vill og þú sætir upp með umframframleiðslu í brjóstinu. Þú talar um að þér finnist mjólkin klárast fljótt.  En það er akkúrat það sem það er "þér finnst". Þetta er tilfinning en alls ekki það sem gerist. Þér er hins vegar alltaf óhætt að bjóða barninu hitt brjóstið ef þér sýnist svo. Þá er góð regla að láta barnið sjúga vel fyrra brjóstið áður en skipt er.
Með bestu óskum og von um 6 mánaða eingöngu brjóst.

Katrín brjóstagjafaráðgjafi

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.