Spurt og svarað

14. september 2005

Sýking í brjóstum

Ég bý úti á landi þ.a. aðgangur minn að ljósmóður er ekki góður.  Ég á 5 mán gamlan dreng sem er á brjósti og undanfarinn mánuð hef ég verið í vandræðum með annað brjóstið, geirvartan verður hörð og hvít (bara hæ.megin) og það fylgjir þessu sviði og verkur.  Gerist bara upp úr þurru. Ég er á sýklalyfjum v/ sýkingar í þessu brjósti núna.  Mig langar bara að vita hvort einhver tengsl séu á milli þessarra verkja og sýkingarinnar. Ég veit ekki af hverju ég fékk þessa sýkingu en hvernig get ég komið é veg fyrir að þetta gerist aftur? Hvað get ég gert til að lina verkina sem ég hef í brjóstinu? 

Með fyrirfram þökk 
 

................................

 

Sæl og blessuð.

Mér finnst ólíklegt að einkennin sem þú lýsir tengist sýkingunni i brjóstinu á nokkurn hátt. Einkennin sem þú lýsir gætu bent til æðasamdráttar í vörtunni. Það gerist þó frekar í vörtum sem hafa einhverntíma skaðast en alls ekki alltaf. Prófaðu að setja heitt stykki bara framan á vörtuna (ekki á allt brjóstið) strax eftir gjafir og hafðu það 1-2 mínútur. Það má gjarna vera eins heitt og þú þolir án þess að brenna þig auðvitað. Taktu líka inn Íbúfen x 3 á dag í nokkra daga og vittu hvort þetta breyti einhverju.

Þú kemur fyrst og fremst í veg fyrir að fá aftur sýkingu í brjóst með því að halda vörtunum heilum, breyta um gjafastellingar a.m.k. x 2 á sólarhring og passa þig að fara ekki í of mikla mjólkurframleiðslu. Það gerist helst ef verið er að mjólka aukalega úr brjóstunum af einhverjum ástæðum.

Og þótt þú búir úti á landi þá átt þú sama rétt og aðrar konur á símaþjónustu brjóstagjafaráðgjafa.

Bestu óskir um að vel til takist.       

 

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
14.09.2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.